Arnór B. Vilbergsson fékk Menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Arnór B. Vilbergsson Súluhafi ásamt Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra sem afhenti Arnóri Súluna.
Arnór B. Vilbergsson Súluhafi ásamt Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra sem afhenti Arnóri Súluna.

Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2016, fór fram við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum föstudaginn 11. nóv. kl. 18.00.   Að þessu sinni hlaut Arnór B. Vilbergsson verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistarlífs í Reykjanesbæ. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta sinn sem Súlan var afhent. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg.

Arnór B. Vilbergsson organisti við Keflavíkurkirkju er fæddur í Reykjavík árið 1975 en alinn upp í Keflavík.  Hann byrjaði ungur í tónlistarnámi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en eftir orgelnám í Tónskóla þjóðkirkjunnar fluttist hann til Akureyrar og nam hjá Birni Steinari Sólbergssyni og lauk þar kantorsprófi. Árið 2008 var Arnór ráðinn organisti við Keflavíkurkirkju og fluttist þá aftur í heimabæinn sinn.  Hann varð frá fyrsta degi virkur í alls kyns tónlistarverkefnum í bæjarfélaginu, bæði trúarlegum og  veraldlegum og hefur m.a. unnið sem tónlistarstjóri, meðleikari, útsetjari, tónskáld auk organistastarfsins. Arnór hefur stjórnað mörgum metnaðarfullum verkefnum með Kór Keflavíkurkirkju, má þar nefna Jólaoratoríu Saints Saens og Requiem eftir Gabriel Fauré sem og verk  utan hefðbundins tónleikahalds, U2 messu árið 2010, Jesus Christ Superstar árið 2013 og vorið 2017 verður flutt Queen messa.  Hann hefur einnig verið tónlistarstjóri tónlistarsýningarinnar Með blik í auga sem sett hefur verið upp á Ljósanótt í Reykjanesbæ frá árinu 2010 og er einn af skipuleggjendum tónleikaraðarinnar Söngvaskáld á Suðurnesjum þar sem fjallað er um tónlistararf Suðurnesjamanna.  Eins hefur hann staðið að hinum svokölluðu „Hjólbörutónleikum“  með þeim Kjartani Má og Elmari Þór. Nú stjórnar hann þremur kórum í bænum, Kór Keflavíkurkirkju, Eldey kór eldri borgara og ungmennakórnum Vox Felix.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson afhenti Arnóri verðlaunin. Við sama tækifæri var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar  Reykjanesbæjar, sem nú var haldin var í sautjánda sinn, þakkaður stuðningurinn. Fram kom í máli Kjartans Más að virk þátttaka bæjarbúa sjálfra yrði meiri með hverju árinu sem liði og þeirra framlag ásamt fjárhagslegum styrktaraðilum gerði það að verkum að Ljósanótt væri í hópi helstu menningarhátíða landsins.  Helstu styrktaraðilar Ljósanætur í ár voru Landsbankinn, Íslandsbanki, HS Orka, Nettó og Skólamatur og voru þeim og 75 öðrum bakhjörlum færðar bestu þakkir.