Ásbrú Norður: Samstarf um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum

Frá fundi
Frá fundi

Bæjarstjórar sveitarfélagsins Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar ásamt framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) undirrituðu í gær samstarfssamning um sameiginlega þróun og uppbyggingu á Ásbrú Norður. Í samstarfi við sveitarfélögin mun Kadeco leiða vinnu við uppbygginu þessa svæðis til framtíðar.

Hugmyndir samningsaðila eru að þar verði ekki einungis samgöngumiðstöð fyrir vörur og farþega heldur miðstöð virðisaukandi framleiðslu og þjónustu þar sem aðföng og afurðir komi frá eða verði fluttar til nærliggjandi heimsálfa. Fyrirmyndir slíkrar uppbyggingar má finna víða um heim og eru svæði umhverfis flugvelli og hafnir víða á meðal helstu vaxtarsvæða viðkomandi landa. Ásbrú Norður er svæði norðan Keflavíkurflugvallar, þar með talið í Helguvík og Rockville. Nánari skilgreining svæðisins verður hluti af samstarfinu, en þar liggja saman skipulags- og landamörk sveitarfélaganna auk þess sem Kadeco hefur til umsjónar stórt landsvæði sem áður tilheyrði Bandaríkjaher.

Ljóst er að mikil tækifæri felast í þeirri uppbyggingu sem nú þegar er í gangi. Í Helguvík getur myndast góður grunnur að klasauppbyggingu með byggingu álvers og kísilverksmiðju. Á Ásbrú má jafnframt finna öfluga uppbyggingu í þekkingu og nýsköpun. Til dæmis Keili Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sem miðar að uppbyggingu og þróun tækifæra. Ásamt frumkvöðlasetrinu Eldey þar sem Kadeco veitir frumkvöðlum aðstöðu og stuðning í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Með tilkomu gagnavers Verne Global á Ásbrú eykst gagnaflutningsgeta svæðisins jafnframt til mikilla muna og í Rockville, fyrrverandi ratsjárstöð varnarliðsins, var lítið þorp jafnað við jörðu. Þar bíða nú lagnir og aðrir innviðir nýrra verkefna.


Samstarfsaðilar telja það tvímælalaust styrkja svæðið að sameinast um uppbyggingu þess og stuðla þannig að öflugra atvinnulífi og betra samfélagi.

Mynd frá undirritun samninga í gær. F.v. Kjartan Þ. Eiríksson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði og Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri í Sandgerði. (Hilmar Bragi Bárðarson)

Af vef VF