Áskorun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni

Ráðhúsið
Ráðhúsið

Bæjarráð Reykjanesbæjar tekur undir áskorun byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar um nauðsyn þess að efla og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, þar á meðal á Suðurnesjum.

Áskorunin er svohljóðandi:

„Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar ákvörðun félags- og barnamálaráðherra um fjölgun starfa hjá brunamálasviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Sauðárkróki. Slíkt er í anda stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og kemur jafnframt fram í ríkisstjórnarsamþykkt þar um.

Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni er landsbyggðarsveitarfélögum þýðingarmikið og mikilvægur þáttur í að efla atvinnu og auka fjölbreytileika atvinnulífs hjá fjölmörgum sveitarfélögum landsbyggðarinnar. Sveitarfélög landsbyggðarinnar eru misjöfn að stærð og gerð en eiga það öll sammerkt að fjölgun opinberra starfa eykur samkeppnisfærni þeirra og skapar þeim tækifæri til vaxtar og framþróunar.

Byggðaráð hvetur stjórnvöld til áframhaldandi góðra verka er kemur að fjölgun opinberra starfa hjá landsbyggðarsveitarfélögum og skorar á önnur sveitarfélög að taka undir áskorun byggðaráðs um eflingu og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.“