Athyglisvert samspil og eigin reynsla í Duus Safnahúsum

Fríða Dís útskýrir tilurð sýningarinnar. Hjá stendur Smári. Ljósmynd: Víkurfréttir
Fríða Dís útskýrir tilurð sýningarinnar. Hjá stendur Smári. Ljósmynd: Víkurfréttir

Heimamenn og nærsveitamenn voru í lykilhlutverki á öðrum degi Ljósanæturhátíðar í gær. Fjölmenn setningarathöfn með yngstu íbúunum gaf tóninn. Heimamenn og gestir notuðu tækifærið til að upplifa og nýta sér góð tilboð sem verslanir eru með og sýningar voru opnaðar víðsvegar um bæinn. Hátíðin fór því vel af stað og góð stemmning var í bænum.

Að venju er það heimafólk sem sýnir í sölum Duus Safnahúsa. Í gær voru opnaðar fjórar nýjar sýningar í jafnmörgum sölum og buðu sýnendur upp á ljóðaupplestur og tónlist. Í listasal er einkasýning Helga Hjaltalíns Eyjólfssonar, Horfur. Miðaldra karlmaður staðsettur í Höfnum reynir að útskýra fyrir sér ástand heimsins og hverjar horfurnar séu. Í Gryfjunni sýnir Elísabet Ásberg verk unnin úr silfri. Verkin eru öll með skírskotun í undirdjúpin og hæfa því rými Gryfjunnar vel. Sýninguna nefnir hún Glyttur.

í Bíósalnum hafa myndlistarkonan Sossa og ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson sameinað krafta sína í hinni erótísku sýningu Blossa. Mjög áhugavert samspil hér á ferð, en Sossa og Anton hafa áður unnið skemmtilega saman með mynd- og ljóðlist. Anton Helgi las upp ljóð við opnunina. Í nýjasta rými Duus Safnahúsa, Stofunni, sýnir tónlistarkonan Fríða Dís Guðmundsdóttir 57 olíumálverk sem hafa að fyrirmynd 57 þungunarpróf. Með sýningunni vill Fríða Dís vekja athygli á því að barnalán sé ekki sjálfgefið og hefur sýningin skírskotun í hennar eigin reynslu. Eftir margar tilraunir birtust loksins II strik á þungunarprófinu. Systkinin Fríða Dís og Smári Guðmundsbörn úr Klassart fluttu tónlist við opnunina.

Gleðin heldur áfram í dag með opinni söngstund í Ráðhúsi, bryggjuballi og kjötsúpuveislu, heimatónleikum og harmonikkuballi, svo fátt sé nefnt. Dagskrána í heild er að finna á vefnum http://www.ljosanott.is

Anton Helgi Jónsson les ljóð. Hjá stendur Sossa