„Við finnum fyrir verulega auknum áhuga fjárfesta og fyrirtækja á verkefnum úti á Reykjanesi, tengt sjóborholum, heitu og köldu vatni og gufu" sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar á íbúafundi í Njarðvík í gærkvöldi. Árni nefndi að tvö mjög öflug fyrirtæki, auk HS orku, störfuðu nú á Reykjanesinu og nýttu þessi gæði.

Hann nefndi Stofnfisk sem nýtir volgan jarðsjó og rafmagn til að vinna laxahrogn og hélt nýlega upp á 20 ár afmæli sitt. Árni taldi að fá íslensk fyrirtæki hefðu náð þeim aldri í þeim gjörningaveðrum sem geisað hafa á sviði fiskeldis á Íslandi. Fyrirtæki eins og Stofnfiskur hefðu náð sterkum tökum á vöru sinni og markaðsmálum og skapa nú tugum fólks örugga vinnu.

Þá nefni Árni fyrirtækið Haustak ehf. sem sérhæfir sig í þurrkun fiskafurða og er orðið mjög tæknivætt á því sviði. Þykir fyrirtækið leiðandi á þessu sviði bæði hvað varðar tækni og gæði. Hjá fyrirtækinu á Reykjanesi starfa 25 manns í fullu starfi. Á Reykjanesi vinnur fyrirtækið árlega úr 8-12 þúsund tonnum af hráefni.

Erlendir og íslenskir aðilar hafa svo nýlega sýnt aukinn áhuga á fiskeldi í stórum stíl, nærri borsvæðinu við Reykjanesvirkjun. Þar er um að ræða möguleika í tilapiu eða beitarfiski, sólflúru, sandhverfu og silungi svo það helsta sé nefnt. Árni sagði að framkvæmdir við þetta framundan geti numið um þremur milljörðum kr., miðað við þær fyrirætlanir sem sveitarfélaginu hafa verið kynntar. Hann nefndi að annað tækifæri þessu tengd væri möguleiki á vinnslu fyrir fiskverkunarhúsin í bænum, ef fiskeldið verður af þeirri stærðargráðu sem stefnt er að. „Enn er þetta sýnd veiði en ekki gefin, og fyrirtækin verða sjálf að meta hvenær þau vilja kynna sig og verkefnin" sagði Árni og vildi ekki hafa fleiri orð um það.

Víkurfréttir greina frá þessu á vf.is

Næsti íbúafundur verður haldinn í kvöld í safnaðarheimilinu í Höfnum og hefst hann kl. 20:00.