Bæjarfulltrúar vilja útrýma slysagildrum á Reykjanesbraut

Bæjarfulltrúar á bæjarstjórnarfundi 16. ágúst 2016.
Bæjarfulltrúar á bæjarstjórnarfundi 16. ágúst 2016.

Síðasta mál á dagskrá bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær var bókun þar sem bæjarstjórn fer fram á það við Ráðherra samgöngumála og Vegamálastjóra að  tvöföldun Reykjanesbrautar verði sett á samgönguáætlun hið fyrsta. Bregðast þurfi við stóraukinni umferð á Reykjanesbraut og halda áfram að útrýma slysagildrum á brautinni, m.a. með gerð hringtorga. 

Bókunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og hefur verið send til Innanríkisráðherra, Vegamálastjóra og afrit til þingmanna kjördæmisins. Í bókuninni kemur einnig fram að þau tvö hringtorg sem hafa verið gerð á veginum við Reykjanesbæ, við Stekk og Grænás, hafi skipt sköpum í bættu umferðaröryggi.

Bókunin er svohljóðandi:

„Reykjanesbær hefur undanfarin ár í samstarfi við Vegagerðina unnið að því að útrýma slysagildrum á Reykjanesbrautinni sem eftir brotthvarf bandaríkjahers sker bæinn í tvennt með tilheyrandi gatnamótum og tengipunktum. Þessar slysagildrur hafa verið greindar eftir slysatölum frá Umferðarstofu. Frá 2009 hafa framkvæmdir við hringtorg Grænás ásamt undirgöngum þar og hringtorgi við gatnamótin við Stekk stórbætt öryggi vegfarenda. Þessi umferðarmannvirki hafa sannað gildi sitt og hafa engin slys orði á fólki þar síðan. Þá stendur yfir útboð í gerð undirganga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur undir Reykjanesbraut við Hafnaveg og skal verkinu lokið 15. nóvember.
Á undanförnum árum hefur umferðin á þessum kafla Reykjanesbrautar stóraukist bæði vegna íbúafjölgunar og stórauknum straumi ferðamanna. Nú er svo komið að ekki er hægt að bíða lengur með  að tvöfalda þennan vegakafla sem telja þrjú svokölluð „T“ gatnamót. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar  fer fram á það við Ráðherra samgöngumála og Vegamálastjóra að  tvöföldun Reykjanesbrautar verði sett á samgönguáætlun hið fyrsta en þar til henni verði lokið  verði tafarlaust farið í eftirfarandi framkvæmdir.
1. Tengja Hafnaveg við hringtorgið við Stekk.
2. Setja hringtorg við gatnamót Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar.
3. Setja hringtorg við gatnamót Aðalgötu og Reykjanesbrautar.
Með því að fara í þessar framkvæmdir verður öllum megin slysagildrum á þessum einum fjölfarnasta vegarkafla útrýmt og öryggi vegfarenda á Reykjanesbraut stóraukið. Þá mun einnig vinnast tími til að vinna að endanlegri lausn sem er tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.“