Verksmiðja United Silicon hf. í Helguvík. Mynd af vef stofnunarinnar, silicon.is.
Verksmiðja United Silicon hf. í Helguvík. Mynd af vef stofnunarinnar, silicon.is.

Bæjarráð Reykjanesbæjar leggur áhersla á að unnið verðir markvisst að endurbótum á kísilverksmiðju United Silicon svo loftgæði séu ekki skert til lengri tíma. Framkomnar fréttir um misvísandi niðurstöður mælinga krefjist þess að vinnubrögð verði endurskoðuð svo íbúar geti treyst þeim upplýsingum sem fram eru settar.

Fulltrúar frá Umhverfisstofnun og Embætti landlæknis komu á fund bæjarráðs í morgun til að ræða málefni kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Umhverfisstofnun sagðist um miðjan mánuð standa við kröfur sínar um að fram skuli fara verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar, vegna mikilla og endurtekins rekstrarvanda. Fulltrúar Umhverfisstofnunar gerðu grein fyrir málinu á fundinum og fóru yfir niðurstöðu bréfs með ákvörðun stofnunarinnar frá 13. mars sl. 

Fram hefur komið að mikið magn arsens hafi mælst í andrúmsloftinu hjá mælingum Orkurannsókna Keilis við Helguvík. Í bréfi Orkurannsókna til Umhverfisstofnunar fyrr í dag kemur hins vegar fram að þeir telji að um mistök í mælingum hafi verið að ræða og hafi þeir séð ástæðu til að rýna í niðurstöður, hvort um kerfisskekkju geti verið að ræða. Nú er rýnt í mæliferlið í samráði við rannsóknarstofu ALS í Svíþjóð og niðurstöðu að vænta á næstunni. Umhverfisstofnun gerði á fundinum í morgun grein fyrir niðurstöðu fundar samstarfsnefndar um sóttvarnir um að styrkur arsens í nágrenni kísilverksmiðjunnar í Helguvík sé langt undir þeim mörkum sem talin eru valda bráðum alvarlegum heilsuspillandi áhrifum.

Bæjarráð þakkaði Umhverfisstofnun og Embætti landlæknis fyrir að bregðast við og koma til fundar við bæjarráð með stuttum fyrirvara. „Umhverfisstofnun er að ráðast í verkfræðilega úttekt á verksmiðjunni og telur nauðsynlegt  að verksmiðjan þurfi að vera í gangi á meðan sú úttekt á sér stað. Þá krefjast framkomnar fréttir um misvísandi niðurstöður mælinga þess að vinnubrögð verði  endurskoðuð þannig  að íbúar geti treyst þeim upplýsingum sem fram eru settar.  Bæjarráð leggur áherslu á að unnið verði markvisst að endurbótum á verksmiðjunni til þess að loftgæði séu ekki skert til lengri tíma,“ segir í fundargerð bæjarráðs frá í morgun.