Bæjarstjóra afhent askjan - Virkjum hæfileikana-alla hæfileikana

Linda Björg Björgvinsdóttir og Íris Guðmundsdóttur forstöðumaður Vinnumálastofnunar, Suðurnesjum færðu Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra í vikunni öskjuna „Virkjum hæfileikana-alla hæfileikana“, en með afhendingu hennar binda Vinnumálastofnun, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtök Þroskahjálpar vonir við að stjórnendur fyrirtækja sjái tækifæri í að ráða atvinnuleitendur með skerta starfsgetu í störf.

Hópur atvinnuleitenda með skerta starfsgetu sem er á skrá hjá Vinnumálastofnun er mjög fjölbreyttur. Allir eiga það þó sameiginlegt að vilja vera virkir í samfélaginu og fá tækifæri til að vinna. Hægt er að ráða í hlutastörf eða fullt starf á grundvelli vinnusamnings milli öryrkja og launagreiðenda. Við ráðningu felst möguleiki á stuðningi frá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar sem getur falist í þjálfun, stuðningi og eftirfylgni á vinnustað. 

Fyrirmyndardagurinn verður haldinn 17. apríl nk. Þá fá atvinnuleitendur með skerta starfsgetu tækifæri til þess að vera gestastarfsmenn hjá fyrirtækjum og stofnunum í einn dag. Meðfylgjandi mynd var tekin í Bókasafni Reykjanesbæjar á fyrirmyndardeginum 2014. Friðrik Hrafn Jónsson var gestastarfsmaður og sést hér fá leiðsögn frá Guðnýju Húnbogadóttur bókaverði.