Bæjarstjóri saumaði fyrsta taupokann fyrir plastlausa Ljósanótt

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri kampakátur við saumaskapinn. Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumað…
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri kampakátur við saumaskapinn. Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar og verslunarmennirnir Kristín Kristjánsdóttir, Dalrós Jóhannesdóttir og Steinunn Ýr Þorsteinsdóttir frá Betri bæ fylgjast með.

Undirbúningur Ljósanætur stendur nú sem hæst. Eins og fram hefur komið er stefnt að plastlausri Ljósanótt. Fyrirtækja- og verslunareigendur í Reykjanesbæ hafa brugðist vel við viðleitni bæjaryfirvalda og samtökin Betri bær hófu ásamt bæjarstjóra og Bókasafni Reykjanesbæjar átak sem miðar að plastlausri Ljósanótt. Markmiðið er að sauma 1000 taupoka í Bókasafni Reykjanesbæjar fyrir Ljósanótt.

Bókasafn Reykjanesbæjar hefur um árabil starfrækt Pokastöð með taupokum sem fólk getur fengið að láni og skilað eftir notkun. Í verkefni safnsins „Saumað fyrir umhverfið“ er markmiðið að fjölga taupokum í stöðinni. Nú þegar stefnt er að plastlausri Ljósanótt þurfa margar hendur að hjálpast að við að fylla Pokastöðina í safninu og koma taupokum til verslana í bænum. Dagana 23. – 31. ágúst eru íbúar hvattir til að koma á Bókasafnið á opnunartíma og taka þátt í verkefninu. Ekki er krafist að fólk kunni að sauma því hægt er að leggja því lið með því að klippa niður efni og merki Pokastöðvarinnar.

Bæjarstjóri fylgdist með mömmu sinni við saumaskapinn

Guðný Kristín Bjarnadóttir starfsmaður Bókasafns Reykjanesbæjar og liðsmaður í stýrihópi Plastlauss september segir drauminn að sauma 1000 taupoka áður en Ljósanótt hefst. „Ég hvet bæjarbúa til að koma til okkar á opnunartíma safnsins og leggja verkefninu lið. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti, klippa niður efni fyrir pokana, klippa niður merki Pokastöðvarinnar, sem saumað er á alla poka, koma með taupoka sem það á heima og leggja í púkkuð, hjálpað okkur að sauma eða bara saumaði sinn eigin poka merktan Pokastöðinni og tekið með heim. Við verðum með efni og saumavélar á staðnum.“

Guðný aðstoðaði Kjartan Má Kjartansson bæjarstjóra við að sauma fyrsta pokann í átakinu en á daginn kom að Kjartan Már var nokkuð lunkinn við saumaskapinn. „Þannig var að mamma saumaði mikið og ég var oft að fylgjast með þó ég hafi ekki sest við saumavélina. Ég kann því ýmislegt fyrir mér,“ sagði Kjartan Már, sem hóf þegar að greina efnið í pokanum þegar verkið hófst.

Hugmyndafræði Pokastöðva er að lána fólki taupoka sem það hefur gleymt að taka með sér. Fólk er hvatt til að segja nei við plastpokum og nota í staðinn fjölnota poka á borð við taupoka. Pokunum sem svo aftur skilað í pokastöð eftir notkun.

Ljósanótt verði plastlaus

Umhverfismál eru í brennidepli og hjá Reykjanesbæ eru þau sífellt í umræðunni. Á síðastliðnum árum hefur Reykjanesbær tekið þátt í árvekniátakinu Plastlausum september. Þar er fólk vakið til umhugsunar um ofgnótt plasts og skaðsemi þess í umhverfinu og bent á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti. Ljósanótt er í september og því er stefnt að „Plastlausri Ljósanótt“ um alla framtíð. Undirbúningsnefnd hátíðarinnar hefur verið í sambandi við flesta stóru hagsmunaðilana sem allir hafa lýst vilja til að virða þessa stefnu og nú verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Hér með er þessari ósk um „Plastlausa Ljósanótt“ komið á framfæri og öllum þeim sem hyggjast koma að viðburðum, sölu eða öðru á Ljósanótt, bent á að taka þarf tillit til „Plastlausrar Ljósanætur“.

Þau atriði sem gripið verður til á Ljósanótt eru m.a.:

  • Flokkunartunnur á hátíðarsvæðinu
  • Skólamatur býður kjötsúpu í pappírsskálum
  • Átakið „Plastlaus september“ verður með kynningu á ýmsum valkostum sem við höfum til að draga úr plastnotkun, t.d. með því að nota tannbursta úr bambus í stað plasts

 Guðný Kristín aðstoðar Kjartan Má, sem kunni samt vel til verka

Kjartan Már afhendir Steinunni Ýr taupokann til nota

Dalrós fékk aðstoð frá Kjartani Má við að sauma merki Pokastöðvarinnar á sinn marnota poka