Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir ánægju sinni með samstöðu á Alþingi vegna stuðnings við framkvæmdir í Helguvíkurhöfn

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir ánægju með þá samstöðu sem myndast hefur á Alþingi um ríkisstuðning við framkvæmdir í Helguvíkurhöfn. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru einhuga að baki frumvarpinu og vonir standa til að fleiri þingmenn styðji málið svo það verði samþykkt með sterkum meirihluta þingmanna. Það er von bæjarstjórnar að ráðherra samgöngumála taki í framhaldi af niðurstöðu Alþingis fljótt og vel á málinu og veiti Reykjaneshöfn umræddan stuðning til framkvæmda með sama hætti og verið hefur gagnvart öllum öðrum stóriðjuhöfnum á landinu.
Komið hefur fram að hugsanlegar tekjur ríkisins vegna framkvæmda við álver geti numið um 1 milljarði kr. á mánuði strax á uppbyggingartíma. Höfn er óaðskiljanlegur hluti slíkra framkvæmda. Því eru fjárhagslegir hagsmunir ríkisins augljósir í að styðja við slíka framkvæmd.

Árni Sigfússon, Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Kristinn Þ. Jakobsson, Björk Þorsteinsdóttir, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson, Magnea Guðmundsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson.