Bærinn fær nýjan vef

Í dag fer í loftið nýr og endurbættur vefur Reykjanesbæjar, reykjanesbaer.is, sem er nú alfarið kominn í heimabyggð.

Að endurbótunum koma fjögur fyrirtæki sem öll eru af Suðurnesjum en þau eru Kosmos & Kaos, Netsamskipti, Dacoda og Ýmir Mobile. Samstarfið hefur tekist einstaklega vel og eru vonir bundnar við að efla það enn frekar á þessum vettvangi.

Nýtt útlit vefsins miðar að því að gera hann notendavænni og auðvelda aðgang að upplýsingum auk þess sem magn og fjölbreytni upplýsinga hefur verið aukið. Má þar nefna betri tengingu við samfélagsmiðla, upplýsingar um þjónustu á korti og ítarlegra viðburðadagatal.

Að auki er áhersla lögð á að samræma betur kostnað við rekstur vefsetra Reykjanesbæjar og ná fram hagræðingu í hýsingu þeirra og þjónustu.

Kosmos&Kaos – markaðssetningu á netinu, þróun og viðhald vefja með áherslu á framúrskarandi hönnun og samfélagsmiðla
Kosmos og Kaos hafa tekið að sér framtíðarþróun vefsins en þeir eru ungt fyrirtæki sem sérhæfir sig í markaðsetningu á netinu, þróun og viðhaldi vefja sem og ráðgjöf með sérstaka áherslu á framúrskarandi hönnun og samfélagsmiðla. Meðal nýlegra verkefna Kosmos & Kaos má nefna stjornlagarad.is, vodafone.is og gitargrip.is  sem hlaut Íslensku vefverðlaunin 2010 í flokki afþreyingarvefja. Að auki hefur Kosmos & Kaos unnið með Keili að markaðsetningu námsbrauta og hafa umsjón með þróun á vef Ásbrúar. Vinna Kosmos & Kaos hefur hlotið verðskuldaða athygli í erlendum fagtímaritum fyrir nýstárlega nálgun í vefhönnun sem hefur laðað að fyrirtæki allt frá Svíþjóð, Lúxemburg og San Francisco svo eitthvað sé nefnt.  

"Við höfum haft að leiðarljósi í allri hönnun að virkja íbúa til þátttöku. Upplýsingaflæði í dag á ekki að vera einstefna frá bæjarfélagi til íbúa. Við reynum að stuðla að þátttöku íbúa og gera fólki auðvelt að deila upplýsingum og viðburðum. Við viljum læra af íbúum, lofa þeim að taka þátt og móta vefinn með okkur. Umfangsmikill vefur fyrir bæjarfélag verður í raun aldrei tilbúinn. Núverandi útgáfa af vef Reykjanesbæjar er byrjun á ferðalagi sem okkur hlakkar til fara í með bæjarbúum og því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá Reykjanesbæ" - segir Guðmundur Bjarni Sigurðsson annar eigenda Kosmos & Kaos 

Dacoda – nýtt vefumsjónarkerfi
Vefur Reykjanesbæjar er sá fyrsti sem fer í nýtt vefumsjónarkerfi hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtækisins Dacoda sem hefur sérþekkingu á upplýsingatækni og þróun veflausna fyrir innlendan og erlendan markað. Hjá Dacoda starfar fagfólk á öllum sviðum hugbúnaðargerðar, ráðgjafar og upplýsingatækni. Starfsfólkið býr yfir haldgóðri þekkingu á vefumhverfinu, hvort sem um ræðir forritun, þarfagreiningu, útlitshönnun eða upplýsingaöflun.

Netsamskipti – hagræðing í hýsingu á einum stað
Vefurinn verður hýstur hjá Netsamskiptum sem er eitt elsta internetþjónustufyrirtæki landsins. Netsamskipti fagna 10 ára afmæli á þessu ári og hafa vaxið mikið síðustu misseri eftir að þeir buðu ADSL tengingar fyrir heimili á mjög hagstæðu verði, í samkeppni víð stóru símafyrirtækin. Vonir standa til að ná fram frekari hagræðingu í hýsingu á vefsetrum Reykjanesbæjar t.a.m. hjá leik- og grunnskólum með því að sameina hana á einni hendi hjá fyrirtækinu.

Ýmir Mobile – kortalausn fyrir vef og farsíma
Að auki nýtir vefurinn hugbúnaðarlausn frá öðru ungu fyrirtæki frá Suðurnesjum, Ými Mobile, sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir farsíma. Fyrirtækið hefur meðal annars birt dagskrá bæjarhátíða s.s. Ljósanætur og menningarnætur í Reykjavík í farsíma og á vef. Ýmir Mobile leggur til kortalausn fyrir vefinn sem býður upp á fjölbreytta möguleika í miðlun upplýsinga fyrir íbúa og gesti. Reykjanesbær hyggst nýta sér þessa þjónustu enn frekar við miðlun á upplýsingum til ferðamanna.

"Þessi samvinna hefur verið einstaklega ánægjuleg og jákvætt að vinna með fyrirtækjum í heimbyggð sem virðast blómstra í þessu árferði. Þessi fyrirtæki eru að skapa störf og bera þess merki að tækni og skapandi greinar eru í sókn í Reykjanesbæ", segir Dagný Gísladóttir verkefnastjóri.