Bardagahús í Reykjanesbæ

Frá undirritun samning vegna nýrrar æfingaaðstöðu.
Frá undirritun samning vegna nýrrar æfingaaðstöðu.

Júdódeild UMFN og Taekwondodeild Keflavíkur fá langþráða æfingaaðstöðu að Iðavöllum 12.

Framkvæmdir við að breyta húsnæðinu, sem er 430 fermetrar, í æfingaaðstöðu fyrir júdó og taekwondo eru þegar hafnar og gert ráð fyrir því að fyrsta æfingin geti farið fram um næstu mánaðarmót. Stjórnarfólk í báðum deildum mun aðstoða við þessar breytingar. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar skipaði starfshóp á dögunum sem kannaði heppilegt húsnæði fyrir þessar bardagaíþróttir og tók þá mið af stærð hússins og staðsetningu vegna akstursleiða strætisvagna. Starfshópurinn lagði til að Iðavellir 12 yrðu teknir á leigu til a.m.k. 3ja ára og var það samþykkt í ÍT ráðinu, sem sendi svo beiðni til bæjarráðs sem samþykkti nauðsynlegt fjármagn vegna leigu á næsta ári auk framkvæmda. Viðbótarkostnaður umfram það sem hingað til hefur verið greitt vegna æfingahúsnæðis fyrir þessar deildir er 2 milljónir króna.
Júdódeild UMFN,sem stofnuð var 8.desember árið 2010,  fékk nýlega viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndafélag en taekwondódeildin, sem var stofnuð í október árið 2000, fékk fyrst slíka viðurkenningu árið 2004. Um 130 börn hjá júdódeildinni og eru þau flest á grunnskólaaldri. Þjálfarar eru Guðmundur Stefán Gunnarsson og Birkir Freyr Guðbjartsson. Júdódeildin hefur unnið til 11 Íslandsmeistaratitla frá stofnun hennar.

Alls æfa 106 börn hjá taekwondodeildinni. Aðalþjálfarar deildarinnar eru Helgi Rafn Guðmundsson og Rut Sigurðardóttir, en aðstoðarþjálfarar eru 3. Árangur í einstaklingskeppnum hefur verið glæsilegur undanfarin ár því alls hafa taekwondo fólk unnið 66 Íslandsmeistaratitla og 11 bikararmeistarartitla, en í félagakeppnum hefur deildin orðið 4 sinnum Íslandsmeistari og 4 sinnum bikarmeistari.

Þriðja bardagaíþróttin, hnefaleikarnir, er með ágætis aðstöðu í gömlu Sundhöllinni samkvæmt samningi við núverandi eigendur hússins. Alls æfa 20 grunnskólabörn svokallað Krakkabox en að auki er iðkendafjöldi eldri boxara um 50 talsins.

Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri Íþrótta- og tómstundasviðs