Barnahátíð dagskrá laugardags

Úr landnámsdýragarði.
Úr landnámsdýragarði.

Barnahátíð í Reykjanesbæ heldur áfram í dag eftir frábæra viðburði síðustu daga svo sem opnanir Listahátíðar barna í Duushúsum og víða um bæinn og Hæfileikahátíðar grunnskólanna sem tókst afar vel í Stapa í gær.

Í dag eru margir spennandi viðburðir framundan. Veðrið lofar góðu, milt og fallegt og farið að bera í bláan himin.  Dagskráin hefst kl. 11.00 með Sirkussmiðju í íþróttahúsi Myllubakkaskóla sem haldin verður af Sirkus Ísland og enginn sprækur krakki ætti að láta framhjá sér fara. Svo taka viðburðirnir við hver af öðrum. Landnámsdýragarðurinn verður opnaður og þar verður boðið upp á grillaðar pylsur, hestar verða leiddir undir börnum, leikfangamarkaður barnanna verður í tjaldi við Víkingaheima og þar er enn laust pláss fyrir búðarkonur og búðarmenn . Þá verður bangsasmiðja í Víkingaheimum þar sem börnin geta mætt með bangsann sinn og hannað á hann Víkingaklæði, Víkingar sýna listir sínar og kenna börnum réttu handtökin við að beita sverði og skildi og boðið verður upp á sirkussýningu. Þá verða söfnin okkar opin og aðgangur ókeypis, Víkingaheimar, Slökkviliðsminjasafnið, Stekkjarkot og Duushús. Allar betri upplýsingar um hvern viðburð er að finna á vefsíðunni barnahatid.is.

Góða skemmtun!