Barnahátíð í Reykjanesbæ hefst í dag

Fjör á barnahátíð.
Fjör á barnahátíð.

„Barnahátíð í Reykjanesbæ hefst með þrefaldri setningarathöfn á fimmtudag,“ segir Guðlaug María Lewis verkefnisstjóri hátíðarinnar en þann dag hefst listahátíð barna, formlega með sýningum allra 10 leikskólanna, allra 6 grunnskólanna og Fjölbrautaskóla Suðurnesja í 4 sölum Duushúsa, menningar- og listamiðstöðvar bæjarins. „Það frábæra er að allir eru með,“ en þar á Guðlaug við alla framantöldu skólana auk Tónlistarskólans og dansskólana tveggja í bænum.  „Þannig má leiða að því líkur að flestar fjölskyldur í bænum sem eiga skólabörn á einhverjum aldri tengist hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Sýningin í Duushúsum, sem aldrei hefur verið jafn stór og nú, hefur alltaf verið mikil undraveröld að skoða“ og hvetur Guðlaug gesti Barnahátíðarinnar til að láta hana ekki framhjá sér fara. Á föstudag fer fram Hæfileikahátíð grunnskólanna, þar sem sýnt er úrval árshátíðaratriða úr öllum grunnskólunum á glæsilegri sýningu, í hinu sögufræga húsi, Stapa. Guðlaug segir markmið hátíðarinnar m.a. vera að skapa vettvang fyrir fjölskyldur til notalegrar samvinnu þeim að kostnaðarlausu og þess vegna er ókeypis á alla viðburði hátíðarinnar.

Risastórt snjóhús mun líta dagsins ljós

Að sögn Guðlaugar nær Barnahátíðin hámarki á laugardag þegar boðið verður upp á margs konar viðburði á hátíðarsvæði sem verður að þessu sinni í nágrenni Duushúsanna. „Meðal viðburða má nefna fjölbreyttar listasmiðjur þar sem m.a. verður hægt að búa til skrímsli, hanna föt á bangsann sinn og taka ljósmyndir á sérlega frumstæðan hátt. Þá mun uppblásið snjóhús, fyrsta sinnar tegundar á landinu, rísa á svæðinu og þar geta börn breyst í búðarmenn og –konur og selt gömlu leikföngin sín eða býttað. Fiskasýning verður á smábátahöfninni, barnaspurningakeppni í anda „pub quiz“ og kraftakeppni krakka. Þá býður Skessan auðvitað í lummur, Gunni og Ævar vísindamaður lesa fyrir börnin og bregða á leik og svona mætti lengi telja. Þegar hamagangurinn stendur sem hæst má reikna með karamelluregni yfir viðstadda og hefur sumum þótt vissara að hafa með sér reiðhjólahjálminn sinn til að verjast þessu harðgerða regni,“ segir Guðlaug.

Barnaóperan Hans og Gréta á sunnudeginum

Þótt megin þunginn sé á laugardeginum er vert að minnast á að á sunnudeginum býður Óp-hópurinn upp á sérstaka barnaóperu, Hans og Grétu, fyrir yngstu kynslóðina í Hljómahöllinni, sem spennandi verður að sjá. Auk þess býður Sambíó í Reykjanesbæ, börnunum upp á ókeypis bíósýningar á sunnudeginum.

Dagskrána í heild sinni, með tímasetningum, staðsetningum og nánari upplýsingum er að finna á vefsíðunni www.barnahatid.is og frítt er á alla viðburði Barnahátíðar.