BAUN, barna- og ungmennahátíð verður haldin 2. – 11. maí. Á BAUN eru börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra sett í forgang og boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa.
Fylgist með á baun.is
Á föstudag hefst BAUN en orðið er skammstöfun fyrir barn annars vegar og ungmenni hins vegar. BAUN hefur auk þess táknræna merkingu þar sem baunir eru auðvitað fræ sem með réttri næringu og góðu atlæti springa út og breiða úr sér. Þannig er barna- og ungmennahátíð frjósamur jarðvegur fyrir börnin okkar og gefur þeim tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra.
Allar upplýsingar um dagskrá BAUNar og einstaka viðburði má finna á vefslóðinni baun.is en einnig má fylgjast með gangi mála á facebooksíðu BAUNar, BAUN, barna og ungmennahátíð og á instagram reikningi Reykjanesbæjar verða birtar daglegar upplýsingar um dagskrá.
BAUNabréfið og BAUN+
Nú í vikunni verður öllum leikskólabörnum og grunnskólabörnum upp í 7.bekk afhent glænýtt BAUNabréf. Tilgangur þess er að hvetja börn og fjölskyldur til að fara á kreik og taka þátt í ýmsum skemmtilegum verkefnum og svara spurningum eða safna stimplum í bréfið sitt. Þátttökuseðli BAUNabréfsins er svo hægt að skila inn á valda staði og þá eiga börnin möguleika á að vera dregin úr potti og vinna til veglegra verðlauna m.a. trampólíns frá Húsasmiðjunni.
Í ár lítur nýr dagskrárliður dagsins ljós en það er BAUN+ sem er ætlað nemendum í 8.-10. bekk og nú hafa þeir einnig möguleika á að fara á kreik og leysa ýmsar skemmtilegar þrautir sem gætu orðið til þess að þeir vinni glæsilegt Elvita partýbox frá Tölvulistanum.
Dagskrá
Fjölmargt spennandi er á dagskrá BAUNar í ár og eru allir hvattir til að kynna sér dagskrána vandlega. Meðal dagskrárliða eru auðvitað Listahátíð barna og ungmenna í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus safnahúsum þar sem gefur að líta listsköpun barna frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Hæfileikahátíð grunnskólanna fer fram í Stapa þar sem úrvalsatriði frá árshátíðum grunnskólanna eru sýnd og streymt samtímis í alla skóla bæjarins. Skessuskokk verður á sínum stað, skemmtilegar listsmiðjur verða haldnar, fjölskyldufjör fer fram í Fjörheimum, hægt verður að gróðursetja fjölskylduBAUN, smella sér í sundlaugarpartý, fá hestateymingu hjá Mána, fara í krakkajóga, taka þátt í Silent Diskó, hitta löggur og gefa þeim fimmu og að sjálfsögðu býður Skessan í lummur í tilefni BAUNar svo fátt eitt sé nefnt.
Allir með!
Við hvetjum fjölskyldur og vini til að taka virkan þátt í BAUNinni 2025, halda af stað í ævintýraleiðangur með BAUNabréfið og BAUN+ að vopni og eiga saman frábærar fjölskyldu- og vinastundir.
Góða skemmtun á BAUN!