Böðvar Jónsson á met í fundarsetu í bæjarstjórn

Böðvar og Guðbrandur.
Böðvar og Guðbrandur.

Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins náði þeim einstaka árangri í gær að sitja sinn 400. bæjarstjórnarfund. Böðvari voru færðar sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu bæjarbúa en hann hefur verið bæjarfulltrúi í yfir 20 ár.

Í máli Guðbrands Einarssonar forseta bæjarstjórnar kom fram að litlar líkur væru á því að met Böðvars yrði slegið á næstunni. Sá bæjarfulltrúi sem kemur næst í fundarsetu er Björk Guðjónsdóttir sem starfar ekki lengur sem bæjarfulltrúi. Nokkrir aðrir bæjarfulltrúar hafa setið rúma 300 fundi en þeir eru einnig hættir afskiptum í bæjarpólitíkinni. Sá starfandi bæjarfulltrúi sem kemur næst á eftir Böðvari í fundarsetu er Árni Sigfússon Sjálfstæðisflokki.

Böðvar hóf stjórnmálaferil sinn í bæjarpólitíkinni í Njarðvík og hefur komið að fjölda mála eins og gefur að skilja eftir langan feril. 

Böðvar komst ekki án hrekks frá fundinum því starfsmenn stjórnsýslusviðs höfðu útbúið pakka sem sagður var innihalda 399 fundargerðirnar sem tilbúnar voru og Guðbrandur afhenti. Böðvari var að sjálfsögðu brugðið enda tæki slík vinna bæði mikinn tíma og mikla fjármuni.