Ofurhetjur í einn dag

Öll börn í elsta árgangi í leikskólum Reykjanesbæjar hafa fengið bókina Ofurhetjur í einn dag að gjöf. Bókin fjallar um barn úr flóttafjölskyldu sem er að byrja í skóla á Íslandi. Hún fjallar einnig um vináttu og samkennd og að vera ofurhetja í einn dag. Anna  Guðrún Steinsen höfundur bókarinnar og Snædís Baldursdóttir frá UN Women heimsóttu leikskólana Völl og Skógarás í gær og afhentu bókagjöf til útskriftarárgangs leikskólanna. Allir leikskólar Reykjanesbæjar fengu líka bók. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir verkefnastjóri í íslensku sem öðru máli, Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir og Lukasz Ryszard Michalski, sérfræðingar í málefnum flóttafólks og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mættu með þeim að afhenda bækurnar og fengu að launum hlýjar móttökur á leikskólunum tveimur og fallegan söng barna.

Meðfylgjandi myndir hér fyrir neðan voru teknar af tilefni afhendingar gjafarinnar og eins og sjá má tóku nemendur á Velli og Skógarási vel á móti gestunum.

UN Women fær allan ágóðann af bókunum eða um 740.000 krónur. Tvö fyrirtæki í Reykjanesbæ kostuðu gjöfina en þau vilja láta gott af sér leiða og styðja við jafnrétti í heiminum.

20. júní er alþjóðlegur dagur flóttafólks og er tímasetning gjafarinnar því engin tilviljun. Þess má geta aðReykjanesbærer eina sveitarfélag landsins sem hefur tekið þátt í #WithRefugees samstöðuverkefni flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), en Reykjanesbær hóf þátttöku í átakinu í lok árs 2019.

Bærinn á sér langa sögu við að hjálpa flóttafólki að setjast að í samfélaginu okkar með því að veita þeim þjónustu um leið og hann styður og hvetur þá til að skapa sjálfum sér og börnum hamingjusamt líf. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, er stoltur af því að taka þátt í samstöðuátaki #WithRefugees borga. „Reykjanesbær fagnar fjölbreytileika í samfélaginu og gerir öllum borgurum kleift að skapa sér gott líf, að hvert einasta barn taki að fullu þátt í samfélaginu,“ útskýrir hann. Bókagjöfin fellur því vel að þessum markmiðum sveitarfélagsins.

Bókagjöfin smellpassar jafnframt við verkefni Reykjanesbæjar sem ber yfirskriftina Allir með! Allir með! er verkefni sem miðar að því að styrkja samfélagsheild Reykjanesbæjar með markvissum og skilvirkum aðgerðum sem stuðla að jákvæðum samskiptum barna og sterkri félagsfærni þeirra. Hetja bókarinnar er gott dæmi um það hvernig vinátta og vellíðan eykst og styrkist þegar við stöndum með okkur sjálfum og öðrum í kringum okkur.

#WithRefugees eða #MeðFlóttafólki er samstöðuátak borga sem styður Alþjóðasamning um flóttamenn (e. Global Compact on Refugees) og hefur það að markmiði að ná til samfélagsins alls og fagna fjölbreytileikanum. Herferðin býður borgum og sveitarfélögum frá öllum heimshornum að skrifa undir samstöðuyfirlýsingu um að stuðla að námi, styðja flóttamenn og leiða þá og samfélögin saman.