Boranir hafnar á nýju vatnsbóli fyrir Reykjanesbæ

Mynd fengin af vefsíðu HS veitna
Mynd fengin af vefsíðu HS veitna

Í ljósi jarðhræringa og mögulegs eldgoss á Reykjanesi og mögulegra áhrifa þeirra á vatnsból Reykjanesbæjar að Lágum í Svartsengi hafa HS veitur og forsvarsmenn Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar unnið að því með stjórnvöldum að koma upp nýju vara vatnsbóli við Árnarétt í Garði. Nýtt vatnsból mun nýtast þeim 25 þúsund íbúum og fyrirtækjum sem eru í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Boranir hófust í gær mánudaginn 20. nóvember og er gert ráð fyrir að nauðsynlegur dælubúnaður sem getur skilað neysluvatni inn á dreifikerfi vatnsveitunnar verði kominn upp eftir u.þ.b. þrjár vikur.

Ljóst er að verði neysluvatnslaust á svæðinu myndi skapa neyðarástand þar sem neysluvatn er grunn forsenda þess að hægt sé að halda uppi búsetu og atvinnustarfsemi á svæðinu. Mikill skilningur hefur verið á þessu og tilskilin leyfi til borunar fengið flýtimeðferð í stjórnsýslunni.