Bréfamaraþon Amnesty International í Bókasafni Reykjanesbæjar

Bókasafn Reykjanesbæjar tekur þátt í Bréfamaraþoni mannréttindasamtakanna Amnesty International þar sem fólki gefst kostur á að undirrita 12 mismunandi kort til stjórnvalda með áskorun um að stöðva gróf mannréttindabrot. Maraþonið hefst í dag og stendur til 18. desember.

Á hverju ári í kringum 10. desember setja hundruð þúsunda einstaklinga, frá 150 löndum og landsvæðum, nafn sitt á milljónir bréfa og korta til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og þrýsta á umbætur. Fjöldinn allur skrifar einnig stuðningskveðjur til þolenda mannréttindabrota og veita þeim þannig styrk og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim.

Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast er erfitt að líta undan. Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi.

Í rúm 50 ár hefur Amnesty International barist gegn mannréttindabrotum með pennann að vopni og á hverju ári er samviskufangi leystur úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolandi pyndinga sér réttlætinu fullnægt, fangi á dauðadeild er náðaður eða ómannúðlegri löggjöf er breytt. Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta ykkar og aðgerða. 

Fleiri þurfa nú hjálpar við. Víða um heim er frelsi fólks ógnað. Aðgerðasinnar eru fangelsaðir og jafnvel dæmdir til dauða fyrir það eitt að tjá skoðun sína. Mótmælendur eru pyndaðir og ranglega fangelsaðir. Ungar stúlkur eru þvingaðar í hjónabönd og fá engu ráðið um líf sitt og líkama. Bréf þín, undirskrift, sms-aðgerðir og netáköll, setja þrýsting á stjórnvöld að bregðast tafarlaust við og snúa ranglæti í réttlæti. 

Íslandsdeildin skorar á fólk að láta ekki sitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi. Á bréfamaraþoni samtakanna er hægt bregðast við vegna 12 áríðandi mála sem þurfa á athygli landans að halda.

Á heimasíðu Amnesty International á Íslandi má lesa margvíslegar reynslusögur um hvernig undirskrifuð kort og bréf hafa komið til bjargar.