Breyttar áherslur í vinabæjasamstarfi Reykjanesbæjar

Þegar Reykjanesbær var stofnaður árið 1994 fylgdu vinabæjartengsl Keflavíkur og Njarðvíkur með í sameiningunni. Þau voru nokkur, byggð á mismunandi grunni og forsendum. Sum stóðu traustum fótum á gömlum merg en önnur voru tiltölulega nýleg, sum byggð á veikum grunni s.s. persónulegum tengslum einstaka bæjarfulltrúa eða starfsmanna. Fjölmargir bæjarbúar hafa í gegnum árin notið þessara tengsla með þátttöku í vinabæjarmótum, íþróttamótum, menningarviðburðum og öðrum samskiptum, ýmist hér heima eða erlendis.

Þessi þáttur í starfsemi Reykjanesbæjar hefur, eins og annað í starfseminni, þróast og tekið breytingum. Til dæmis hafa lítil sem engin formleg samskipti verið við vinabæi í USA, Færeyjum og fleiri löndum um langt skeið en samstarf innan Norðurlandanna lifað góðu lífi. Þátttakendur í því samstarfi hafa verið fyrrum vinabæir Keflavíkur þ.e. Hjörring í Danmörku, Kristiansand í Noregi, Trollhättan í Svíþjóð og Kerava í Finnlandi. Auk þessara vinabæja samþykktu bæjaryfirvöld að stofna til nýrra tengsla við tvö héruð í Kína árið 2012 og 2014; Henan og Xianyang. Hins vegar hefur ekki reynt mikið á þau tengsl ennþá og óvíst hvort og þá hvernig þau munu þróast.

Hjörring gengur úr samstarfinu

Fyrir nokkrum vikum barst erindi frá bæjaryfirvöldum í Hjörring í Danmörku þar sem þau sögðu sig úr farsælu, áratugalöngu vinabæjarsamstarfi. Ástæðan eru breyttar áherslur í erlendum samskiptum Hjörring þar sem myndast hafa annars konar tengsl og verkefni innan Evrópusambandsins.  Bæjarstjóra Reykjanesbæjar var falið að þakka íbúum og bæjaryfirvöldum í Hjörring fyrir langt og farsælt samstarf og hefur slíkt erindi þegar verið sent.

Umbótaverkefni og íþróttamót

Á þessu ári munu fulltrúar Reykjanesbæjar taka þátt í tveimur viðburðum sem byggja á grunni norræna vinabæjarsamstarfsins. Annars vegar er um að ræða vinnufund þriggja bæjarfulltrúa og þriggja embættismanna í Trollhättan í mars og hins vegar þátttöku 18 ungmenna fædd 2002 í knattspyrnumóti í Kerava í Finnlandi í lok júní.

Vinabæjarmót, vinnufundur og 100 ára afmæli Trollhättan

Næsta formlega vinabæjarmót fer fram í Trollhättan í Svíþjóð 10 - 12. mars nk. Um leið mun borgin fagna 100 ára afmæli sínu. Einn liður í vinabæjarmótinu verður undirritun nýs vinabæjarsamkomulags en í því verður m.a. kveðið á um það markmið að samstarfið snúist um raunhæf, markviss umbótaverkefni sem standa munu yfir í 2 ár í senn. Frá upphafi hafa makar bæjarfulltrúa tekið þátt í þessum mótum en því hefur nú verið hætt.

Þátttakendur frá öllum vinabæjunum munu í Trollhättan undirbúa og hleypa af stokkunum þremur umbótaverkefnum sem unnið verður að næstu 2 árin.  Verkefnin eru:  1) umbætur og þróun rafrænnar stjórnsýslu 2) móttaka erlendra nýbúa og 3) hvernig er hægt að draga úr brottfalli nemenda úr framhaldsskólum. Þetta eru allt verkefni sem eru ofarlega á baugi Reykjanesbæjar og samvinnan við vini okkar á Norðurlöndunum því kærkomin. Finnarnir eru t.d. komnir á fleygiferð í rafrænni stjórnsýslu og Trollhättan skilgreinir sig sem „International city“ með innflytjendur frá meira en 100 löndum.

Knattspyrnumót í Finnlandi

Í lok júní munu svo 9 strákar og 9 stelpur taka þátt í knattspyrnumóti ungmenna í Kerava. Fyrir utan íþróttirnar hafa þessi mót þann tilgang að efla og styrkja tengsl þátttakenda og auka skilning þeirra á högum hvers annars. Með hópnum fara auk tveggja þjálfara þrír starfsmenn Reykjanesbæjar sem fararstjórar. Í tengslum við íþróttamótin funda embættismennirnir um sameiginleg mál tengd íþróttum og væntanlega mun gestgjafahlutverkið koma í hlut Reykjanesbæjar árið 2018. 

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Hér má lesa vinabæjarsamninginn