Dagur kennara

Ungir námsmenn.
Ungir námsmenn.

Ágætu kennarar

Í  dag er dagurinn okkar.

Á degi sem þessum er gott að staldra við og rifja upp af hverju við ákváðum að verða kennarar. Auðvitað erum við misjöfn en ég held að flest okkar ef ekki öll hafi ákveðið að verða kennarar vegna þess að við trúðum því að við hefðum eitthvað að gefa æsku þessa lands, við hefðum tækifæri til að láta gott af okkur leiða. Með starfi okkar sem kennarar höfum við tækifæri til að bæta þjóðfélagið sem við búum í og gefa börnum tækifæri sem þau kannski hefðu ekki fengið.
Við skólafólk í Reykjanesbæ og á Reykjanesi deilum framtíðarsýn sem sett er fram með skýrum hætti á heimasíðu Reykjanesbæjar. Í framtíðarsýninni er fólgin jákvæð draumsýn, trúin á að  eina raunhæfa leiðin  út úr því samdráttarskeiði sem nú ríkir á Íslandi sé  fólgin í framtíð barna okkar, góðri menntun þeirra sem gefur þeim tækifæri til að finna sér nám og starf í samræmi við hæfileika hvers og eins.
Okkar hlutverk er að laða fram það besta sem býr í hverjum og einum. Að hver og einn geti orðið það sem hann getur orðið.  Við ætlum að gefa nemendum okkar tækifæri með því að skila frá okkur heilsteyptum einstaklingum sem hafa til að bera getu til að bjarga sér í samfélagi sem tekur örum og sífelldum breytingum.
Tímabundið þurfum við að leggja sérstaka áherslu á að bæta námsárangur, þar eru sóknarfærin núna  fyrir nemendur okkar.  Það þýðir auðvitað ekki að við vanrækjum aðra þætti, við ætlum bara að verða góð í þessu líka.
Ég er ykkur þakklátur fyrir það þróttmikla starf sem þið eruð að vinna og er óendanlega stoltur af því að fá tækifæri til að vinna með ykkur að því að raungera þær hugmyndir sem fram koma í sameiginlegri framtíðarsýn okkar. Með því að ná markmiðum hennar erum við að gefa æsku þessa lands þau tækifæri sem hún á skilið.

Til hamingju með daginn kennarar.

Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri