Dagur leikskólans er sjötti febrúar

Myndir af veggspjaldi Dags leikskólans í ár.
Myndir af veggspjaldi Dags leikskólans í ár.

Leikskólarnir í landinu halda upp á Dag leikskólans ár hvert þann 6. febrúar. Að venju munu leikskólarnir í Reykjanesbæ gera sér dagamun í tilefni dagsins. Verðlaunin Orðsporið er veitt á þessum degi.

Dagur leikskólans er nú haldinn hátíðlegur í 11. sinn og hvatningarverðlaunin Orðsporið verða afhent í sjötta sinn. Orðsporið er veitt þeim sem hefur þótt skara fram úr í að efla orðspor leikskólans og/eða hefur unnið ötullega í þágu leikskóla. Orðsporið verður afhent á hátíðarhöldum í leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit kl. 10:00 þriðjudaginn 6. febrúar. Í Reykjanesbæ eru 10 leikskólar sem allir bjóða upp á metnaðarfullt og gróskumikið starf. 

Þeir sem vilja vekja athygli á deginum í samfélagsmiðlum eru hvattir til að nota myllumerkið #dagurleikskolans2018.

Sjötti febrúar er merkisdagur í sögu leikskólans hér á landi því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Félagar í Félagi leikskólakennara eru um 2200 og tæplega 500 manns eru í Félagi stjórnenda leikskóla.