Deilt um skaðsemi gúmmíkurls

Engar óyggjandi sannanir hafa borist á skaðsemi svarts gúmmíkurls, sk. SBR gúmmí, á heilsu fólks, þó kurlið sem slíkt sé ekki æskilegt til notkunar á sparkvöllum þar sem það innheldur eiturefni eins og allt svart gúmmí. Minni líkur eru á skaðsemi við notkun kurls utandyra. Læknafélag Íslands hefur skorað á stjórnvöld að banna notkun á gúmmíkurli á sparkvöllum og með aukinni umhverfis- og heilsuvitund hefur verið ákveðið að leggja til, við gerð fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2016, að gúmmíkurlinu á sparkvelli við Akurskóla verði skipt út í næstu viðhaldsframkvæmdum. Fjárhagsáætlun 2016 fer til annarrar umræðu í bæjarstjórn 15. desember nk.

Í grein í Víkurfréttum 10. nóvember sl. er vísað í þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi frá Willum Þór Þórssyni þingmanni Framsóknarflokksins, sem vill banna notkun gúmmíkurls á leik- og íþróttavöllum. Enn er ekki ljóst hvenær málið kemst á dagskrá. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og íbúi og foreldri í Reykjanesbæ skoraði í fréttinni á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að bregðast strax við og fjarlægja kurlið.

Málið hefur verið skoðað af starfsfólki Reykjanesbæjar sem kemur að því og meðal þess sem komið hefur fram á fundum er að KSÍ er með gúmmíkurl á sparkvöllum landsins til skoðunar. Beðið verður upplýsinga þaðan. Þá hafa viðræður við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja leitt í ljóst að starfsfólk sér ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu. Álit þeirra byggir á rannsóknarskýrslu Mengunarvarnarstofnunar danska umhverfisráðuneytisins frá 2008 þar sem m.a. kemur fram að gúmmíkurl úr bíldekkjum valdi hvorki skaða við innöndun rykagna úr kurlinu, nema fyrir fólk sem er viðkvæmt í öndunarfærum, né verulegum skaða fyrir umhverfið s.s. mengunar grunnvatns.

Í skýrslunni er vísað til svissneskrar, franskrar og þýskrar rannsóknar sem sýna sambærilegar niðurstöður og ekki þykir ástæða að rengja. „Við höfum ekkert annað í höndunum en þessa skýrslu og samkvæmt henni er ekki talin sérstök ógn af þessu gúmmíkurli. Hins vegar er gert ráð fyrir að þessu sé skipt út þegar þar að kemur og þar spilar ekki síður inn í umhverfisáhrif,“ segir Magnús H. Guðjónsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Svart SBR gúmmíkurl verður ekki notað í framtíðinni á íþróttasvæðum í Reykjanesbæ.

Hægt er að nálgast dönsku skýrsluna hér.