Duushúsin 10 ára, fjöldi sýninga opnaðar um helgina

Horft yfir Duushús
Horft yfir Duushús

Nýjar sýningar í öllum sölum Duushúsa

Nú eru tíu ár liðin frá því að Duushúsin, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar opnuðu með sýningunni Bátasafn Gríms Karlssonar. Bátaflotinn samanstóð þá af 59 líkönum en er nú kominn yfir eitt hundrað og alltaf ný að bætast við. Sýningarsölunum hefur einnig fjölgað í húsinu og eru salirnir nú orðnir fjórir og þar má sjá mismunandi sýningar safnanna í bænum, listasafnsins og byggðasafnsins.  Í tilefni þessara tímamóta verða opnaðar nýjar sýningar, sem allar tengjast sjómönnum eða sjómennsku, í öllum sölum Duushúsa laugardaginn 2. júní kl. 14.00 og eru allir bæjarbúar velkomnir að koma og njóta.

Bátasalur

Sýning á 100 bátalíkönum eftir skipstjórann Grím Karlsson og tréskúlptúrum eftir skipstjórann Guðmund Garðarsson. Báðir þessir skipstjórar hafa fundið sér nýjan vettvang eftir að þeir hættu til sjós, annar smíðar bátalíkön en hinn sker út myndir í rekavið.

Listasalur

Millilandamyndir, sýning á verkum úr einkasafni Matthíasar Matthíassonar, fyrrverandi skipstjóra á millilandaskipum og Katrínar M. Ólafsdóttur eiginkonu hans. Einnig eru til sýnis gömul skipalíkön af Fellunum í eigu Samskipa.

Gryfjan

Á vertíð. Ný sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar sem  segir sögu svæðisins fram til 1940.

Bíósalur

Blönduð sýning sögu og listar: Verk úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar sem tengjast sjónum, ljósmyndasýning af nýjustu Fellunum hjá Samskip, stórt líkan af Skipasmíðastöð Njarðvíkur og myndir í tengslum við það og síðast en ekki síst nokkur bátalíkön sem velunnarar Bátasafnsins munu afhenda í tilefni sjómannadagsins.

Sjómannamessan

Að lokum er minnt á árlega sjómannamessu sem haldin er í Bíósal Duushúsa á sunnudaginn kl. 11.00 í samstarfi við prest Ytri-Njarðvíkurkirkju og fleiri aðila.