Eggjabú í orðsins fyllstu!

Listaskólabörn.
Listaskólabörn.

Sköpunargleðinni eru engin takmörk sett þegar Listaskólakrakkarnir okkar eru annars vegar og þau voru ekki lengi að töfra fram glæsilegt eggjabú undir mávaeggin sem þau fundu í vettvangsferð með Listaskólanum í morgun.

Hvort eitthvað klekst út úr eggjunum verður að koma í ljós en sköpunarverk af öðru tagi líta dagsins ljós í massavís í Listaskólanum þessa dagana. Þegar ljósmyndara bar að garði mátti sjá skrautleg andlit, börn að hnýta marglit vinabönd, fígúrur úr tröllaleir, pappírsfiðrildi, krítarlistaverk á planinu fyrir utan Svarta pakkhúsið og börn í snú snú og að blása sápukúlur. Svei mér þá, ef sumarið er ekki bara komið!