Einstakur árangur hefur náðst í heilsueflingu eldri íbúa í Reykjanesbæ

Janus Guðlaugsson útskýrir kerfið fyrir nýja hópnum sem var á gönguæfingu í Reykjaneshöll.
Janus Guðlaugsson útskýrir kerfið fyrir nýja hópnum sem var á gönguæfingu í Reykjaneshöll.

Nýir þátttakendur hafa skráð sig til leiks í heilsueflingarverkefni Dr. Janusar Guðlaugssonar fyrir íbúa í Reykjanesbæ 65 ára og eldri. Niðurstöður athugana á þeim þátttakendum sem hafa verið með frá upphafi sýna að árangur heilsueflingar er einstaklega góður. Full ástæða er til að ná til stærri hóps eldri íbúa í bænum. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 11. janúar sl. að styrkja verkefnið áfram. Verkefnið fellur vel að verkefni embættis landlæknis Heilsueflandi samfélag sem Reykjanesbær er aðili að.

Verkefnið „Fjölþætt heilsurækt í Reykjanesbæ – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+“ hófst um miðjan maí 2017. Haldin var kynningarfundur og íbúum í þessum aldurshópi boðin þátttakan. Rúmlega 120 manns voru í fyrsta hópnum en nú í janúar bættust rúmleg 100 nýir þátttakendur í hópinn.

Rannsóknir sem gerðar voru á þátttakendum í maí og nóvember sýna umtalsverða bætingu á ýmsum heilsufarsbreytum sem kannaðar voru. Sú mæling sem vakið hefur hvað mestan áhuga í kjölfar aukinnar daglegrar hreyfingar og styrktarþjálfunar eru breytingar á blóðgildum þátttakenda sem snúa að efnaskiptavillu eða áhættuþáttum hjarta og æðasjúkdóma. Starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem er einn samstarfsaðila, sá um blóðmælingar. Við greiningu á efnaskiptavillu kom í ljós að 34 einstaklingar voru í aukinni áhættu við upphaf mælinga. Við endurteknar mælingar kom í ljós að 14 einstaklingar af þeim 34 eru nú lausir við þessa áhættu. Gildin hafa færst til betri vegar í kjölfar æfinga og breytts lífsstíls. Hér er um 41% bætingu að ræða á milli mælinga í maí og nóvember. Flestir aðrir eru að færa sín gildi til betri vegar. Efnaskiptavilla lýsir ákveðnu líkamsástandi þar sem áhættan á hjarta- og æðasjúkdómum auk sykursýki 2 eykst nær áttfalt greinist þeir í þessu ástandi.

Hreyfing og styrktarþjálfun aukist

Ástæðuna segir Janus einkum tvær. Daglega hreyfingu þátttakenda sem jókst úr tæplega 12 mínútum á dag í rúmlega 25 mínútur að meðaltali og reglulega styrktarþjálfun sem jókst um rúmlega 1 skipti á viku. Áður voru aðeins um 10 einstaklingar sem stunduðu slíka þjálfun. Hann segir þetta frábært en þó þurfi að gera enn betur með áframhaldandi þjálfun og bættu mataræði. „Þetta ástand verður ekki til á nokkrum mánuðum. Þetta er uppsafnaður vandi í kjölfar kyrrsetu lífsstíls sem við erum að reyna að breyta. Ekki má gleyma þeirri frábæru menningu sem á sér stað í Reykjaneshöll hjá hinum eldri sem hittast þar nær daglega og ganga.“

Af öðrum niðurstöðum má nefna að blóðþrýstingur hefur lækkað og eru neðri mörk hans nú orðin eðlileg hjá þátttakendum, 78,9 mmHg en voru í upphafi 83,3 mmHg. Sambærileg lækkun varð á efri mörkum, sem fór úr 151,1 í 143,9 mmHg. Jákvæð áhrif blóðþrýstingslyfja er oft ekki svona mikil og hreyfingin hefur hjá mörgum af þeim eldri sem þurfa að taka slík lyf inn, að sögn Janusar. Þá hefur hvíldarpúls lækkað sem og líkamsþyngdarstuðull. Vöðvaþol og liðleiki þátttakenda hefur einnig aukist umtalsvert. Til að mynda jókst handstyrkur þátttakenda úr 59,59 kg í 64,31. Þá má segja að afkastageta hjartans hafi aukist um 10% á þessum sex mánuðum ef miðað er við gönguvegalengd í sex mínútna gönguprófi. Það er einstaklega góður árangur, að sögn Janusar.

Fyrirmynd verkefnisins er sótt í doktorsverkefni Janusar og er samstarfsverkefni Janus heilsueflingar, Reykjanesbæjar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Sóknaráætlun Suðurnesja. Markmið verkefnisins er að bæta heilsu og lífsgæði fólks með daglegri hreyfingu og bættri matarmenningu. Með því má seinka innlögnum inn á dvalar- og hjúkrunarheimili. „Að seinka 100 eldri einstaklingum á landinu öllu um eitt ár jafngildir ávinningi sem nemur um 1.3 milljörðum króna,“ segir Janus. Sú góða reynsla sem náðst hefur í Reykjanesbæ hefur orðið til þess að Hafnarfjarðarbær er að hefja sambærilegt verkefni . Þá hafa  fyrirspurnir um verkefnið verið algengar.

Hér er tengill í fyrri umfjöllun um verkefnið

Lilja og Jansu við æfingar í Massa   Janus og Gunnar við æfingar í Massa