- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Í gærkvöldi voru íslensku myndlistarverðlaunin 2020 veitt fyrir fullu húsi í Iðnó í Reykjavík. Að þessu sinni féllu þau í skaut Guðjóni Ketilssyni fyrir sýninguna Teikn sem opnuð var í Listasafni Reykjanesbæjar janúar 2019. Sýningarstjóri sýningarinnar var Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, sem hefur verið einn helsti sérfræðingur og ráðgjafi safnsins frá upphafi.
Þessi verðlaun eru mikilvæg viðurkenning á því metnaðarfulla og faglega starfi sem unnið hefur verið í safninu frá stofnun þess árið 2003. Ein birtingarmynd þess er sú að myndlistarmenn á borð við Guðjón, sem nú hefur hlotið þessa helstu viðurkenningu íslenskra myndlistarmanna, líta til safnsins sem vettvangs fyrir listsköpun sína og jafnframt að litið er til safnsins við val á sýningum ársins.
Guðjón er einn af fremstu myndlistarmönnum þjóðarinnar og hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar á rúmlega fjörutíu ára ferli sínum. Verk hans eru í eigu allra helstu listasafna á Íslandi auk nokkurra erlendis. Sýning Guðjóns í Listasafni Reykjanesbæjar vakti mikla athygli og hrifningu gesta. Hún var samsett úr átta verkum sem öll fjölluðu með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur,“ í víðum skilningi.
Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)