Enn heilsar sólin og blíðan á Ljósanótt

Leikskólabörn fylgjast með setningu Ljósanætur. Ljósmynd: Ozzo
Leikskólabörn fylgjast með setningu Ljósanætur. Ljósmynd: Ozzo

Mikil og góð stemmning ríkti í Reykjanesbæ í gær á fyrsta degi Ljósanæturhátíðar. Fjöldi sýninga voru opnaðar um allan bæ og lista- og handverksfólk opnaði vinnustofur sínar upp á gátt. Ýmis tilboð voru í gangi sem Ljóstanæturgestir nýttu sér og geta nýtt sér alla hátíðina.

Fimmtudagskvöld Ljósanæturhátíðar er líkast einni stórri vinahátíð þar sem bæjarbúar og brottfluttir rölta um götur og kíkja á viðburði.  Enginn fer hratt yfir enda mikið um dýrðir og allsstaðar er fólk sem þarf að kasta kveðju á. Heimamönnum finnst því gott að hafa daginn í dag, morgundaginn og sunnudaginn til þess að ná að sjá og upplifa alla viðburði sem eru í gangi.

Í dag opnar hönnunarveisla á Park Inn by Radisson þar sem fjölmargt listafólk sýnir verk sín og hönnun og súpubílarnir frá Skólamat keyra niður Hafnargötu að hátíðarsvæði og gefa súpu við smábátahöfn, þar sem síðar verður slegið upp Bryggjuballi. Kjötsúpa Axels Jónssonar og hans fólks í Skólamat bregst aldrei og yljar á svölum haustsíðdögum. Bæjarstjórnarbandið kemur fram á Bryggjuballinu ásamt fleiri góðum sveitum og í framhaldi af því bjóða heimamenn í gamla bænum á stofutónleika. Þeir sem sjálfir vilja syngja geta kíkt í Ráðhúsið í dag kl. 15:00 þar sem starfsfólk hússins ætlar að leiða fjöldasöng.

Unga fólkið ætlar að tjútta í Stapa í kvöld með Aroni Khan og fleiri ungstyrnum en þau sem eldri eru geta valið um Feðgana, Króm, Júdas eða dansleik með harmonikkuundirspili. Sem sagt dagskrá fyrir alla. Hægt er að kynna sér alla dagskrárliði Ljósanætur á www.ljosanott.is