Árið 2023 eru átta ár liðin frá því að 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, settu sér sameiginleg markmið, alls 17 heimsmarkmið um betri heim, sem í grunninn fela í sér að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni meðal annars að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt.
Stefna Reykjanesbæjar tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hefur tengt 12 af 17 heimsmarkmiðum við stefnuáherslur sínar. Reykjanesbær tók ákvörðun um að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna vegna þess að ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar bera öll jafna ábyrgð á að markmiðunum verði náð.
Í framtíðarsýn sveitarfélagsins segir að Reykjanesbær verði fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta- og menningarstarf og íbúar sinni fjölbreyttum störfum í vistvænu fjölmenningarsamfélagi sem einkennist af virðingu, eldmóði og framsækni.
Í dag, þann 25. september 2023, tekur Reykjanesbær þátt í fánadegi heimsmarkmiðanna ásamt hundruðum fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga á heimsvísu. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að sýna stuðning í verki.