Fengu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur

Verðlaunahafar í víkingaskipi.
Verðlaunahafar í víkingaskipi.

Nær 100 nemendur úr Reykjanesbæ eru á meðal þeirra 10% nemenda á öllu landinu sem hlutu hæstu einkunnir á samræmdum prófum á haustönn 2013.  Þetta gerist um leið og grunnskólanemar Reykjanesbæjar náðu almennt mjög stórstígum framförum á samræmdum prófum í haust.

Í tilefni af þessum árangri bauð bæjarstjórinn í Reykjanesbæ til móttöku í Víkingaheimum þar sem nemendum voru veitt viðurkenningarskjöl.
“Þegar nemandi brýtur af sér í skólastarfinu, er gjarnan kallað á foreldra þeim gerð grein fyrir vandanum og óskað samstarfs um að leysa vandann. En þegar nemandi skilar frábærum árangri – þá, því miður, köllum við ekki alltaf foreldra til sérstaklega eða nefnum það við nemendur hvort þau geri sér grein fyrir hvað þau eru að afreka. Það viljum við gera hér”, sagði Árni m.a. í ávarpi sínu til gesta. 

“Þið eruð að sýna frábæran mælanlegan árangur – á landsmælikvarða – og þið eruð skóla ykkar, umhverfinu og samfélaginu til sóma og mikil hvatning fyrir aðra nemendur. Í þessum hópi eru jafnan sterkir forystumenn til framtíðar jafnt á sviði lista, íþrótta, vísinda og félagslegrar þátttöku.”
Síðast liðið haust tóku nemendur í 4., 7. og 10. bekk grunnskólanna í Reykjanesbæ samræmd próf. Prófin eru framkvæmd með sama hætti um allt land og fara fram í íslensku, stærðfræði og ensku.