Ferðasaga Guðríðar fær góðar undirtektir

Frá uppfærslu á ferðasögu Guðríðar.
Frá uppfærslu á ferðasögu Guðríðar.

Sýningar á Ferðasögu Guðríðar Á ÍSLENSKU hafa fengið frábærar undirtektir og hefur því verið ákveðið að bæta við nokkrum sýningum í júní- 4. 5. 11. 12. júni. Sýningar hefjast kl 20 en einnig er boðið upp á fiskisúpu á undan en þá er mæting kl 19 (panta þarf fiskisúpu sérstaklega). Skipið tekur aðeins um 50 manns og því er mjög takmarkaður sætafjöldi og mikilvægt að bóka sem fyrst.

Saga Guðríðar Þorbjarnardóttur er stórbrotin saga konu í hættulegum heimi. Áhorfendur ganga um borð í víkingaskipið Íslending og fara í ferðalag með Þórunni Ernu Clausen sem leikur Guðríði. Sagan hefst á ferðalagi frá Íslandi og vestur um haf og endar á suðurgöngu Guðríðar þar sem hún hittir páfann í Róm.

Þótt efni leiksins byggist á ferðum þessarar víðförlustu konu miðalda er verkið í raun ekki ferðasaga, heldur myndar það ramma um sögu konu sem þorir að fara óhefðbundnar leiðir og taka á þeim sorgum og sigrum sem því fylgir.

Ferðasaga Guðríðar eftir Brynju Benediktsdóttir er hér í nýrri uppfærslu Maríu Ellingsen. Þórunn Erna Clausen leikur Guðríði, Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd, Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir og Sveinbjörg M. Ingibjargardóttir hannar búninga.

Sýningin fór upphaflega í sigurför um Bandaríkin og Kanada í tilefni árþúsundamótanna og það sýndi sig að þessi leikræna túlkun var til þess fallin að vekja áhuga á þessum merkilega þætti Íslendingasagnanna sem tengir okkur og Vesturheim. Ekki er hægt að finna betri stað til að fá að upplifa söguna um Guðríði en um borð í Íslendingi.

Víkingaheimar opnuðu fyrir tæpu ári síðan í glæsilegu nýju húsnæði þar sem skipið Íslendingur, völundarsmíð Gunnars Marels Eggertssonar, er miðpunkturinn.

Ferðasaga Guðríðar er mögnuð upplifun og fróðleg og skemmtileg sýning.

 Miðasala er í síma 422 2000 (milli kl 11 og 18) og á www.midi.is.