Fimmtubekkingar í fótsporum Víkinga

Þessa vikuna er öllum 5. bekkingum í Reykjanesbæ, um 260 nemendum, boðið í heimsókn í Víkingaheima og í Hafnir til að fræðast um fornleifar á Suðurnesjum. Í Víkingaheimum fá nemendur að skoða fornleifar sem þegar hafa fundist á svæðinu og síðan er haldið út í Hafnir til að sjá fornleifafræðinga að störfum við uppgröft á landnámsskála í Vogi. Það er ómetanlegt þegar möguleiki skapast á að tengja nám með svo beinum hætti við raunverulegar aðstæður eins og hér er gert en nemendurnir hafa allir lært um landnámið í vetur í skólanum.

Það er Byggðasafn Reykjanesbæjar sem stendur fyrir fornleifarannsókninni og nemendaheimsóknunum. Síðast var grafið í Vogi árið 2009 og þá var staðið fyrir sams konar heimsóknum 5. bekkinga. Það er Fornleifafræðistofan undir stjórn Dr. Bjarna F. Einarssonar sem stýrir rannsókninni og hefur hann velt fyrir sér hvort hér sé um að ræða eins konar útstöð frá Evrópu sem reist var skömmu fyrir hið eiginlega landnám. Hlutverk útstöðvarinnar hefur þá verið að nýta allar þær auðlindir sem svæðið bauð upp á.
Ráðgert er að rannsóknin standi í fjórar vikur og geta áhugasamir fylgst með framvindu mála í Höfnum.