Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2021-2024 samþykkt 15. desember

Ráðhús Reykjanesbæjar
Ráðhús Reykjanesbæjar

Fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 var samþykkt á 601. fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 15. desember 2020 þar sem fram fór síðari umræða um áætlunina. Fjárhagsáætlunin samanstendur af A-hluta bæjarsjóðs og samstæðu A og B hluta. Til samstæðunnar teljast auk bæjarsjóðs B-hluta stofnanir sem reknar eru sem sérstakar einingar og sveitarfélagið á meirihluta í eða að öllu leyti s.s. HS Veitur, Reykjaneshöfn, Fráveita Reykjanesbæjar o.fl.

Í áætluninni eru heildartekjur og –útgjöld áætluð út frá forsendum sem samþykktar hafa verið og taka mið af þjóðhagsspá, spá fjármálastofnana um vaxta- og verðbólguþróun ásamt spá um atvinnuleysi Vinnumálastofnunar, svo eitthvað sé nefnt, en margar breytur hafa áhrif á áætlunargerðina. Þær forsendur sem hafa mest áhrif á áætlunina eru neysluvísitala, íbúaþróun, launavísitala og spá um atvinnuleysi. Atvinnuleysi hefur bæði mikil áhrif á spá um útsvarstekjur en einnig á framlög frá Jöfnunarsjóði og þar sem skráð atvinnuleysi í dag í Reykjanesbæ nemur 22% er viðbúið að árið 2021 verði áfram tekjuskerðing hjá sveitarfélaginu en bóluefni við Covid19 vekur vonir um hraðari viðsnúning í atvinnulífinu. Áhrif heimsfaraldurs hefur torveldað gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 – 2024 þegar tekið er mið að framansögðu.

Gjaldskrá fyrir árið 2021 hækkar að meðaltali um 2,5% milli ára. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í C-flokki var lækkað úr 1,60% í 1,52% til að mæta raunhækkun fasteignaskatts á lögaðila þar sem áætlað er að fasteignamat fasteigna í C-flokki muni hækka á árinu 2021.

Helstu niðurstöður áætlunarinnar eru þær að gert er ráð fyrir að tekjur bæjarsjóðs lækki á milli áranna 2020 og 2021 um 200 milljónir króna en rekstrarkostnaður hækki um 1.200 milljónir króna. Helstu ástæður eru samningsbundnar launahækkanir og aukin útgjöld m.a. vegna erfiðs atvinnuástands. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda er gert ráð fyrir að bæjarsjóður verði rekinn með 2.500 millj. kr. halla en samstæða A og B hluta með samtals um 2.000 millj. kr. halla árið 2021.

Gert er ráð fyrir að skuldaviðmið samstæðunnar hækvfg fvfdki en verði áfram innan lögboðinna 150% marka og að veltufjárhlutfall bæjarsjóðs verði 0,78.

Þá er gert ráð fyrir að ráðist verði í margvíslegar framkvæmdir 2021. Til viðbótar við árlegt viðhald fasteigna og gatnakerfis eru nokkur stærri verkefni á döfinni. Má þar nefna nýframkvæmd á íþróttahúsi og sundlaug við Stapaskóla, nýtt hjúkrunarheimili, nýja hreinsistöð fráveitu og framkvæmdir og uppbyggingu við Njarðvíkurhöfn.

Helstu fjárfestingar á árinu 2021:

 • Stapaskóli – íþróttahús og sundlaug, 1. áfangi, 650 millj.kr.
 • Njarðvíkurhöfn 189 millj.kr. hlutur eftir framlag frá ríkinu
 • Nýtt hjúkrunarheimili 100 millj.kr.
 • Viðbygging við Fjölbrautarskóla Suðurnesja 20 millj.kr.
 • Gervigrasvöllur við Reykjaneshöll 100 millj.kr.
 • Heilsustígar og umhverfisverkefni 150 millj.kr.
 • Önnur verkefni 80 millj.kr.

Stefnumörkun Reykjanesbæjar til ársins 2030, sem ber yfirskriftina „Í krafti fjölbreytileikans“, samanstendur af 6 megin áherslum og 11 aðgerðum 2020 og 2021. Má þar nefna innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, áframhaldandi stuðning við Fjölþætta heilsueflingu 65 ára og eldri, áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja og margt fleira. Nánar má lesa um stefnuna, gildin og aðgerðir í stefnuskjalinu - sjá hér

Í lok árs 2021 verða svo skilgreindar nýjar aðgerðir fyrir næstu tvö ár.

Markmiðin 11 eru hér útlistuð og eru verkefni sem unnið hefur verið með á árinu 2020 og í fjárhagsáætlun fyrir 2021:

 1. Bæta almenningssamgöngur með skilvirkara leiðarkerfi og aukinni tíðni. Kerfið nýtist fyrir íbúa í leik og starfi. Sérstaklega verði horft til þess að kerfið nýtist ungu fólki til að efla þátttöku barna í íþróttum og auka vellíðan þeirra.
 2. Hvatagreiðslur hækki og verði sambærilegar og hjá öðrum stærri sveitarfélögum landsins, þannig verði hvatt til aukinnar þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi barna.
 3. Samþætta skólastarf barna í 1.- 4. bekk við íþróttir og tómstundir til að auðvelda börnum og foreldrum lífið. Börnin ljúki almennt skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir kl. 17.00 á daginn.
 4. Áfram verður unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðri samvinnu við íþróttafélög.
 5. Opna ungbarnadeildir frá 18 mánaða aldri í a.m.k. tveimur leikskólum fyrir haustið 2021.
 6. Styrkja fjölþætta heilsueflingu 65+ um heilsueflingu eldri borgara enn frekar til að fleiri íbúar taki þátt.
 7. Uppbygging leiksvæða, hreystivalla, grænna svæða og göngustíga til að auka aðgengi íbúa að aðstöðu til útiveru.
 8. Lækkun fasteignaskatta til þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á starfsumhverfi sem stenst allan samanburð.
 9. Auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
 10. Hvatt verði til virkra samskipta milli ólíkra hópa m.a. með því að halda þjóðhátíðardag Pólverja hátíðlegan.
 11. Öll málaleitan íbúa sem má leysa í fyrstu snertingu verði leyst í fyrstu snertingu með öflugri ferlum og aukinni rafrænni þjónustu.

Fjárhagsáætlunina ásamt forsendum og fylgiskjölum má finna hér