Fjármál Reykjanesbæjar

Reykjanesbær hefur á grundvelli samkomulags við innanríkisráðherra, átt í viðræðum við kröfuhafa sveitarfélagsins með það að markmiði að endurskipuleggja fjárhag sveitarfélagsins. Eins og fram hefur komið í tilkynningum Reykjanesbæjar hefur samkomulag náðst við stærsta kröfuhafa sveitarfélagsins Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. (EFF) um að umfang skuldavanda Reykjanesbæjar og stofnana hans sé 6.350 milljónir króna.


Fulltrúar Reykjanesbæjar hafa frá því í febrúar sl. leitast við að kynna skuldavandann fyrir öðrum kröfuhöfum sveitarfélagsins og stofnana þess, þ.á m. þær forsendur sem ræddar höfðu verið við EFF og mögulegar leiðir að fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélagsins og stofnana þess.


Afrakstur þeirrar vinnu var kynntur fyrir bæjarráði Reykjanesbæjar í dag. Samhliða voru lögð fram drög að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana hans. Samkomulagið byggir á áætlunum sveitarfélagsins og viðræðum við kröfuhafa. Það gerir ráð fyrir aðilar að samkomulaginu (fjárhagslegir kröfuhafar) færi niður skuldir og/eða skuldbindingar Reykjanesbæjar og stofnana hans með beinni niðurfærslu samtals að fjárhæð kr. 6.350 milljarða.  Í meginatriðum eru ákvæði samkomulagsins eftirfarandi:


1. Að fjárhagslegir kröfuhafar Reykjanesbæjar og/eða stofnana hans sem njóti tryggingar í fasteignum og/eða eru með leigusamning við sveitarfélagið samþykki sama hlutfall í formi niðurfærslu skulda, lækkun leigugreiðslna og/eða breytingu skilmála. Miðað er við að tryggðir fjárhagslegir kröfuhafar gefi eftir 24,4% af skuldum og/eða skuldbindingum sínum við Reykjanesbæ og stofnanir hans. Með tryggðum kröfuhöfum í samkomulaginu er átt við kröfuhafa sem njóta veðtryggingar í fasteignum og/eða eru leigusalar Reykjanesbæjar.
2. Samkomulagið gerir ráð fyrir að óveðtryggðir kröfuhafar Reykjanesbæjar og/eða stofnana bæjarins samþykki 50% niðurfærslu af skuldum og/eða skuldbindingum sínum við Reykjanesbæ og stofnanir hans.
3. Samkomulagið gerir ráð fyrir að fjárhagslegir kröfuhafar Reykjaneshafnar samþykki að gefa eftir 45% af kröfum sínum. Sá hluti skulda sem samsvarar fjárhæð útreiknaðs tryggingaverðmætis sætir 24,4% niðurfærslu en skuldir umfram tryggingaverðmæti eru metnar ótryggðar og sæta 50% niðurfærslu.
4. Allar fjárhæðirnar í samkomulaginu miðast við árslokastöðu ársins 2015.


Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í dag að samkomulagið bæri að að skjalfesta og bera undir kröfuhafa til samþykkis eða synjunar með eftirfarandi fyrirvörum:


1. Allir fjárhagslegir kröfuhafar undirriti samkomulagið.
2. Að bæjarstjórn samþykki aðlagaða fjárhagsáætlun sem liggur til grundvallar samkomulaginu.
3. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga samþykki aðlagaða fjárhagsáætlun samkvæmt tölulið 2.
4. Samningum um endurfjármögnun skulda og skuldbindinga og/eða skilmálabreytingum verði lokið fyrir 30. júní 2016.


Bæjarráð samþykkti jafnframt að næðist ekki samkomulag við fjárhagslega kröfuhafa til samræmis við samkomulagið fyrir 15. apríl nk. yrði óskað eftir því að sveitarfélaginu væri skipuð fjárhaldsstjórn skv. 86. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.


Í ljósi samþykkta bæjarráðs er hér með boðað til kynningarfundar allra kröfuhafa sem bera þurfa niðurfærslu skv. samkomulaginu í húsakynnum LOGOS lögmannsþjónustu, Efstaleiti 5, Reykjavík kl. 13.00 mánudaginn 11. apríl 2016.