Fjölbreytt afþreying í Aðventugarðinum

Aðventugarðurinn fór vel af stað um liðna helgi og var líflegt um að litast í honum á laugardaginn. Meðal þeirra sem komu fram þennan fyrsta opnunardag var Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, hljómsveitin Grip úr sýningu Leikfélags Keflavíkur “Fyrsti kossinn” og þá kom í heimsókn sérstök snjóprinsessa og fjallamaðurinn hennar ásamt jólasveinum.

Því miður voru veðurguðirnir í miklu óstuði á sunnudag og gekk stormur yfir landið með gulum veðurviðvörunum og því ekkert annað að gera þann dag en að njóta aðventunnar við kertaljós og kósýheit heima í stofu.

Jólasveinar koma til byggða
Nú á laugardag og sunnudag verður Aðventugarðurinn opinn frá kl. 13-17 með fjölbreyttri dagskrá. Söluaðilar verða á sínum stað og jólasveinar koma í heimsókn auk ýmissa annarra atriða á torginu. Vegna gildandi samkomutakmarkana eru dagskrárliðir ekki tímasettir heldur spretta upp af og til yfir daginn.

Þrautabraut og ratleikur
Gestir geta gengið að ýmsu vísu í Aðventugarðinum en alla daga er boðið upp á heitt kakó á hlóðum auk þess sem hægt er kaupa sykurpúða til að steikja yfir opnum eldi. Þá er ekki ólíklegt að jólasveinar verði á vegi fólks í garðinum. Eins má benda á að fígúrur frá Leikfélagi Keflavíkur standa fyrir skemmtilegum ratleik í Aðventugarðinum og ungmennaráð Fjörheima stýrir ævintýralegri þrautabraut fyrir börn. Eru foreldrar hvattir til að fylgja börnum sínum í þessa skemmtilegu viðburði.

Leikskólalundur
Þá leynast í sérstökum lundi skrúðgarðinum ofsalega fallega skreytt tré sem leikskólabörn bæjarins eiga heiðurinn af. Þegar gengið er inn í skrúðgarðinn frá torginu er lundinn að finna á hægri hönd. Eru bæjarbúar hvattir til að kíkja í fallega leikskólalundinn en það er gott til þess að vita að okkar yngstu íbúar eru þegar farnir að leggja gott til í þetta skemmtilega verkefni sem Aðventugarðurinn er. Megi sú þróun halda áfram á þann hátt að samfélagið Reykjanesbær hjálpist að við að sjá til þess að Aðventugarðurinn halda áfram að vaxa og dafna.