Fjölgun tækifæra til framhaldsnáms

Á íbúafundi með bæjarstjóra Reykjanesbæjar að Ásbrú í síðustu viku voru ýmsar fróðlegar upplýsingar veittar um menntun og aukin tækifæri til framhaldsnáms.

Í máli Árna bæjarstjóra kom fram að mikil aðsókn hefur verið að Fjölbrautaskóla Suðurnesja á undanförnum árum og komast að færri en vilja. Yfir 1000 nemendur er þar við nám.

Með tilkomu Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs að Ásbrú í Reykjanesbæ, hefur tækifærum til framhaldsnáms fjölgað verulega. Þar bjóðast námstilboð tengd flugi og flugtækni, orku og tæknifræði og heilsu auk háskólabrúar sem ætlað er að brúa bilið frá námsstöðu nemanda yfir í háskólanám. Háskóli Íslands er bakhjarl Keilis í undirbúningi námsframboðs og útskrifar nemendur á háskólastigi. Keilir hefur útskrifað um 720 nemendur og þar af um 400 af háskólabrú.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur undanfarin ár boðið fjarnám á háskólastigi í samstarfi við háskólann á Akureyri við mjög góðan orðstír. Kennaramenntun, hjúkrunarfræði og viðskiptafræði hafa verið á meðal námsgreina og fjöldi Suðurnesjamanna skilað góðum árangri og útskrifast þannig frá HA.

Í máli Árna bæjarstjóra kom einnig fram að Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur undanfarin ár verið að útskrifa nemendur á framhaldsstigi og mikill metnaður bæjarfélagsins er til að styrkja þá starfsemi frekar strax og betur árar. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er einn stærsti einstaki tónlistarskóli landsins.

Síðast nefndi Árni að mjög áhugavert væri að Listdansskóli Reykjanesbæjar fengi réttindi til kennslu á framhaldsstigi. Allur aðbúnaður og fagmenntun kennara væri til mikillar fyrirmyndar og því mikilvægt að ná fram slíkri viðurkenningu á næstu mánuðum.

Árni taldi að þar með væri bjart framundan í möguleikum til framhalds- og háskólanáms á mörgum sviðum í Reykjanesbæ.

Frá þessu er greint á vf.is