Fjölmenni á vel heppnuðum 17. júní hátíðarhöldum

Skrúðgarðurinn 17. júní 2019
Skrúðgarðurinn 17. júní 2019

Það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við bæjarbúa á vel heppnuðum og mjög fjölmennum 17. júní hátíðarhöldum í Reykjanesbæ í gær. Það var Kristján G. Gunnarsson fyrrum formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis sem dró hátíðarfánann að húni undir styrkri stjórn skátafélagsins Heiðabúa sem stóð heiðursvörð og leiddi skrúðgöngu að hátíðarsvæði ásamt lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Eftir fánahyllingu flutti Karlakór Keflavíkur flutti þjóðsönginn  og  Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar setti hátíðina. Fjallkonan að þessu sinni var Azra Crnac, háskólanemi, sem flutti ljóð Tómasar Guðmundssonar, Ávarp fjallkonu. Ræðumaður dagsins var Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar í Reykjanesbæ sem lagði m.a. út frá mikilvægi virðingar og vináttu samborgara í garð hvers annars.

Fjölbreytt afþreying var í boði fyrir yngstu kynslóðina um allan garð og má þar nefna alls kyns hoppukastala, skemmtilegar leikjastöðvar, hestateymingu og tattútjald. Þá var einnig dagskrá á sviði þar sem Friðrik Dór, Lilli klifurmús og Mikki refur náðu upp rífandi stemningu. Botninn í dagskrá á sviði slógu danshóparnir okkar úr Bryn Ballett akademíunni og Danskompaní með uppskeru vetrarstarfsins, glæsilegum dansatriðum.

Þar sem saman kemur fólk í hátíðarskapi, fjölbreytt dagskrá og gott veður er fátt sem kemur í veg fyrir góðan dag. Þjóðhátíðardagurinn í gær var einmitt slíkur dagur.