Fjölskyldudagskrá í vetrarfríi grunnskólanna

Í vetrarfríi grunnskólanna verður boðið m.a. upp á hrekkjavökuföndur í Bókasafni Reykjanesbæjar sem…
Í vetrarfríi grunnskólanna verður boðið m.a. upp á hrekkjavökuföndur í Bókasafni Reykjanesbæjar sem tilvalið er fyrir fjölskyldur að njóta saman. Ljósmynd: Bókasafn

Duus Safnahús og Bókasafn Reykjanesbæjar bjóða upp á fjölskyldudagskrá í vetrarfríi grunnskólanna sem hefst í dag og stendur fram til þriðjudagsins 23. október. Boðið verður upp á Ratleik, hrekkjavökuföndur og bókamerkjasmiðju. Ýmislegt fleira verður hægt að gera saman í fríinu, fara í sund, hjóla eða labba Strandleiðina eða skella sér Reykjaneshring. Þá ætla Fjörheimar að halda borðtennismót fyrir nemendur í 8. - 10. bekk og bjóða upp á hjólabrettakennslu í vetrarfríinu.

Duus Safnahús ætla að bjóða upp á skemmtilegan ratleik í Bátasalnum. Í Bíósalnum verður boðið upp á origami bókamerkjasmiðju í tengslum við sýninguna Endalaust. Þar hafa 20 íslenskir hönnuðir gefið hlutum, sem annars væri hent, nýtt líf. Í smiðjunni er notast við alls kyns pappír sem af einhverjum ástæðum stóð til að henda og hann nýttur til að útbúa litrík og skemmtileg bókamerki. Að auki er hægt að skoða stórskemmtilegar sýningar í öllum sölum. Duus Safnahús er opið alla daga kl. 12:00 til 17:00 og er ókeypis inn.

Bókasafn Reykjanesbæjar ætlar að taka forskot á hrekkjavökusæluna og bjóða upp á margvíslegt hrekkjavökuföndur í vetrarfrí grunnskólanna. Það er tilvalið fyrir börn og foreldrar, forráðamenn og ömmur og afa að koma saman og klippa út pappírsbrúður og hrekkjavökugrímur. Þær verður síðan hægt að nota í komandi hrekkjavökufagnaði. Að auki er bókasafnið stútfullt af skemmtilegum bókum sem nú streyma inn og gaman er að skoða saman. Safnið er opið kl. 9:00 til 18:00 í dag og mánudag og kl. 11:00 til 17:00 laugardag.

Félagsmiðstöðin Fjörheimar heldur borðtennismót fyrir unglinga í 8., 9.  og 10 bekk í kvöld og verður með hjólabrettakennslu fyrir sama aldurshóp á mánudag. Báðir viðburðirnir verða kl. 19:30 til 21:30.

Ofan á skemmtilegar samverustundir í söfnunum má bregða sér saman á svæðið við 88 húsið, hjóla eða labba saman Strandleiðina, sem er 10 km löng. Fjölskyldan getur skipst á að lesa söguspjöldin á leiðinni og fræðast um sögu Reykjanesbæjar, fuglalífið við Strandleiðina og fleira skemmtilegt. Sundlaugin er svo að sjálfsögðu opin í vetrarfríinu og Reykjanesið er alltaf opinn fyrir skemmtilegar skoðunarferðir.