Frá setningu Ljósanætur
Frá setningu Ljósanætur

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð í Reykjanesbæ verður haldin í ellefta sinn 2. til 5. september. Reykjanesbær hefur ávallt haft það að leiðarljósi að Ljósanótt sé fjölskylduhátíð og við skipulagningu hennar er lögð áhersla á að dagskráratriði höfði til fólks á öllum aldri. Hátíðarhöldin hafa alla jafna farið vel fram og ánægjulegt að sjá að fjölskyldur úr öllum áttum sameinast með okkur í Reykjanesbæ á þessum tímamótum.

Í tengslum við hátíðina verður rekið athvarf í öryggismiðstöð að Hafnargötu 8. Að athvarfinu standa Fjölskyldu- og félagsþjónustan, Útideildin, Lögreglan og Foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ. Athvarfið verður starfrækt á föstudags- og laugardagskvöld eftir að skipulagðri dagskrá lýkur. Börn og ungmenni sem eru ein á ferli og/eða eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna verða færð í athvarfið. Þar taka á móti þeim starfsmenn barnaverndar og aðrir starfsmenn sem standa vakt í athvarfinu. Haft verður samband við foreldra og þess óskað að þeir sæki börnin sín. Þessar aðgerðir eru fyrst og fremst til verndar fyrir börnin okkar en jafnframt til stuðnings foreldrum í uppeldishlutverki sínu. Starfsfólkið í athvarfinu leggur sig fram við að aðstoða þau börn og ungmenni sem þangað koma, þar til þau eru sótt. Foreldrar hafa alla jafnað tekið þessu fyrirkomulagi vel og brugðist skjótt við. Það er greinilegt að foreldrar hafa lagt sig fram að halda utan um börnin sín á Ljósanótt því með hverju árinu hefur þeim börnum fækkað sem færð eru í athvarfið. Það er von mín að sú þróun haldi áfram og bið ég foreldra að hjálpa okkur til að svo megi verða.
Það er ekki að ástæðulausu að útivistartími er lögbundin á Íslandi og að á sumrin sé hann lengri en á veturna. Það er sannreynt að því fylgir ákveðin hætta að börn séu eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur. Því er afar mikilvægt að við foreldrar stöndum saman um að virða útivistartímann, á það jafnt við um Ljósanótt sem önnur kvöld. Þann 1. september tekur vetrartíminn við og skv. barnaverndarlögum skulu börn 12 ára og yngri ekki vera lengur úti en til kl. 20.00 nema í fylgd með fullorðnum og börn á aldrinum 13-16 ára skuli ekki vera ein á almannafæri eftir klukkan 22.00.
Foreldrar sýnum ábyrgð í verki og eigum góðar stundir með börnum okkar á Ljósanótt.

Hátíðarkveðjur
María Gunnarsdóttir