- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
„Fólkið okkar“ er nýr liður á samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar, þar sem markmiðið er að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu störf sem unnin eru hjá bænum og allt það góða fólk sem þar starfar. Í þetta sinn kynnum við Guðríði Þórsdóttur, þjónustufulltrúa í þjónustuveri Ráðhús Reykjanesbæjar.
Guðríður lýsir sér sem sveitastelpu af Suðurlandinu sem endaði í Keflavík eftir að „einn innfæddur nældi í hana á balli í höfuðborginni“. Þau fluttu saman til Reykjanesbæjar árið 2001 og eignuðust tvo syni. Guðríður er heimakær og segir fjölskylduna og samveru með fólkinu sínu skipta sig mestu máli. Hún nýtur þess að fara í göngutúra eða í Þitt Form tíma og segir að uppáhaldsstaðurinn hennar í bænum sé “Costa del Vatnaveröld” og ekkert jafnast á við að koma heim eftir daginn, kveikja á kerti og fá sér kaffibolla.
Guðríður hóf störf hjá Reykjanesbæ árið 2005 og starfaði í Ráðhúsinu til ársins 2015. Eftir nokkurra ára hlé sneri hún aftur árið 2022 og hefur sinnt ýmsum hlutverkum innan ráðhússins. Lengst af hefur hún þó starfað sem þjónustufulltrúi í þjónustuveri, þar sem hún og samstarfsfólk hennar þjónusta bæjarbúa, starfsfólk og stofnanir bæjarins, bæði í síma, tölvupósti, netspjalli og við borðið á Grænásbrautinni. Verkefnin eru fjölbreytt og beiðnir fólks misjafnar, en eins og hún segir sjálf: „Við leysum úr hlutunum með ánægju.“
„Fjölbreytileiki starfsins er mikill og enginn vinnudagur er eins,“ segir Guðríður.
„Sumir dagar líða áreynslulaust og aðrir geta verið krefjandi, en við mætum verkefnunum með bros á vör. Ég vinn með frábæru fólki á öllum sviðum og mér þykir vænt um vinnustaðinn minn. Það er alltaf gott að koma í vinnuna og andrúmsloftið í þjónustuverinu okkar er létt og skemmtilegt.“
Við þökkum Guðríði kærlega fyrir að opna dyrnar að sínu starfi og hlökkum við mikið til að halda áfram að segja frá Fólkinu okkar.
Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)