Fólkið okkar – Hans Árnason

„Fólkið okkar“ er nýr liður á samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar, þar sem markmiðið er að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu störf sem unnin eru hjá bænum og allt það góða fólk sem þar starfar. Í þetta sinn kynnum við Hans Árnason, veitingastjóra Hljómahallar.

Hans er fæddur og uppalinn í Njarðvík. Hann gekk í Njarðvíkurskóla og hóf síðar nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en lauk flugþjónustunámi frá Keili árið 2010. Eftir útskrift ferðaðist hann víða um heiminn áður en hann settist að í Austin, Texas, þar sem hann hóf nám í hótel- og viðburðastjórnun og útskrifaðist árið 2017.

Það var þó ekki bara námið sem beið hans í Bandaríkjunum, því þar kynntist hann eiginmanni sínum, Peter Hart. Þeir giftu sig einnig árið 2017 en þar sem að Peter langaði að kynnast lífinu á Íslandi og hafa þeir búið hér á „klakanum“ síðustu ár, eins og Hans orðar það.

Í mars 2023 hóf Hans störf sem veitingastjóri Hljómahallar, þar sem hann sér um salarleigu og hefur umsjón með árshátíðum, veislum, fundum og flestum þeim fjölbreyttu viðburðum sem haldnir eru í húsinu.

„Það sem ég kann best við starfið mitt er hversu fjölbreytt og lifandi það er,“ segir Hans. „Enginn viðburður er eins og það er alltaf eitthvað nýtt að takast á við, ég er oft með marga bolta í loftinu í einu. Ég tel mig heppinn að hafa fundið starf hér í Reykjanesbæ sem nýtir vel þá menntun og reynslu sem ég öðlaðist erlendis.“

Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, segir Hans vera hina fullkomnu blöndu sem allir stjórnendur óska sér: Kurteis, þjónustulundaður og um leið ákveðinn. „Hans er alveg yndislegur karakter og það er virkilega gaman að vinna með honum. Hann er ekki aðeins mjög vel liðinn af samstarfsfólki sínu í Hljómahöll, heldur fær hann gjarnan 10 í einkunn fyrir þjónustu, sem honum er greinilega mjög umhugað um.“

Við þökkum Hans kærlega fyrir að opna dyrnar að sínu starfi og hlökkum við mikið til að halda áfram að segja frá Fólkinu okkar.