„Fólkið okkar“ er nýr liður á samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar, þar sem markmiðið er að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu störf sem unnin eru hjá bænum og allt það góða fólk sem þar starfar. Fyrsti viðmælandinn okkar er hún Margrét Kolbeinsdóttir, sem margir þekkja sem Möggu Kolbeins, og vinnur hún á leikskólanum Tjarnaseli.
Margrét er fædd og uppalin í Keflavík, fjögurra barna móðir og á 11 barnabörn. Fjölskyldan er henni hjartfólgin og áhugamálin meðal annars jóga og ferðalög, hvort sem um er að ræða skipulagðar gönguferðir eða sólarstrendur.
Starfsferill hennar hjá Reykjanesbæ spannar yfir fjóra áratugi. Hún hóf störf árið 1984 í leikskólanum Garðaseli og hefur frá árinu 1996 starfað í Tjarnarseli. Þar hóf hún störf sem deildarstjóri en hefur núna tekið að sér nýtt hlutverk sem leiðsagnakennari, þar sem hún leiðbeinir nýju starfsfólki, styður við meistaranema og kennara, ásamt því að vinna með elstu börnunum í leikskólanum. „Ég hóf nám árið 2001 þegar Reykjanesbær og Miðstöð símenntunar fóru af stað með fjarnám í leikskólakennaranámi, sem var alveg frábært tækifæri fyrir reynda leiðbeinendur í bæjarfélaginu. Árið 2005 útskrifaðist ég ásamt 12 öðrum leikskólakennurum sem fóru að vinna í leikskólum bæjarins.“
Margrét segir að starfið sé lifandi og fjölbreytt og að enginn dagur er eins: „Að vera leikskólakennari er að mínu mati besta, mest gefandi og skemmtilegasta starf í heimi. Það að fylgjast með þroska og framförum barnanna eru forréttindi. Ég er stoltur leikskólakennari sem finnst alltaf gaman að fara í vinnuna. Að vinna á stað þar sem starfsmannahald er stöðugt og stjórnendur faglegir leiðtogar sem með eldmóði hvetja starfsfólk sitt til dáða er ómetanlegt.“
Við þökkum Möggu kærlega fyrir að opna dyrnar að sínu starfi og hlökkum við mikið til að halda áfram að segja frá Fólkinu okkar!