Fólkið okkar – Steindór Gunnarsson

„Fólkið okkar“ er liður á samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar, þar sem markmiðið er að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu störf sem unnin eru hjá bænum og allt það góða fólk sem þar starfar. Að þessu sinni kynnum við Steindór Gunnarsson, kennara og leiðbeinanda við Njarðvíkurskóla, þar sem hann hefur starfað í 35 ár!

Steindór er fæddur og uppalinn í Þykkvabænum. Hann er íþróttafræðingur að mennt og á þrjár dætur þær Unni, Margréti og Júlíu. Eiginkona hans, Hafdís Björg, starfar einnig sem kennari við Njarðvíkurskóla. Auk kennslunnar hefur Steindór sinnt sundþjálfun frá árinu 1991, fyrst með sunddeild Njarðvíkur og síðar með ÍRB.

Steindór hóf störf við Njarðvíkurskóla árið 1991 og hefur sinnt þar fjölbreyttum hlutverkum í gegnum tíðina. Fyrstu árin kenndi hann íþróttir og var með umsjónarbekki, en árið 2002 tók hann við Björkinni sem er sérhæft námsúrræði innan Njarðvíkurskóla sem þjónar nemendum í Reykjanesbæ með fjölþættan vanda og eiga erfitt með að fóta sig í hefðbundnu skólaumhverfi. Þar hefur hann starfað allar götur síðan.

„Starfið er mjög fjölbreytt og hver dagur kemur með eitthvað nýtt inn í lífið,“ segir Steindór.
„Það sem hefur veitt mér mestan innblástur er að hjálpa til við að finna styrkleika hvers einstaklings, leiðbeina þeim út í lífið og sjá þá ná árangri. Mikilvægast af öllu finnst mér að nemendur geti lokið grunnskólagöngu sinni með jákvæða upplifun og hafi trú á eigin verðleikum.“

Við þökkum Steindóri kærlega fyrir að opna dyrnar að sínu starfi og fyrir að vera leiðarljós fyrir þá sem þurfa á því að halda. Við hlökkum við mikið til að halda áfram að segja frá Fólkinu okkar.