Forsætisráðherra í heimsókn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom í heimsókn til Reykjanesbæjar í dag til að heyra hljóðið í sveitarstjórnarmönnum og heimsækja nokkra staði.

Heimsóknin hófst í Stapaskóla þar sem starfsfólk og nemendur tóku vel á móti forsætisráðherra. Katrín fékk þar tækifæri til að kynna sér hugmyndafræði skólans og fylgjast með nemendum og kennurum að störfum í nýstárlegu námsumhverfi ásamt því að spjalla við krakkana. Heimsóknin vakti mikla lukku og ekki stóð á spurningum til forsætisráðherra frá nemendunum um hin ýmsu málefni.

Að því loknu var boðið til hádegisverðar í DUUS húsum með sveitarstjórnarfólki og framkvæmdastjórn sveitarfélagsins. Þar gafst tækifæri til þess að ræða þau mál sem eru í brennidepli hér á Suðurnesjum í dag en atvinnumál skipuðu stóran sess í umræðunni. Því næst var ferðinni heitið á Ásbrú þar sem hún heimsótti bæði Keili og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Í Keili var farin sýnisferð um skólann auk þess sem Katrín ávarpaði kennara og starfsmenn skólans sem voru önnum kafin við metnaðarfulla stefnumótunarvinnu. Hjá SSS fékk forsætisráðherra svo kynningu á stöðu verkefna sem komu út úr Suðurnesjaskýrslunni sem snúa öll að því að bæta þjónustu og efla sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Eftir að Katrín kvaddi Reykjanesbæ eftir fróðlega heimsókn var ferðinni heitið til nágranna okkar í Grindavík. Við þökkum Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra kærlega fyrir heimsóknina.