Frábær árangur nemenda í samræmdum prófum í 4. bekk í Reykjanesbæ

Ungir námsmenn.
Ungir námsmenn.

Fyrstu niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk haustið 2012, eru nú komnar.  Árangur nemenda í  stærðfræði í 4.bekk í Reykjanesbæ  er nú með því allra besta sem gerist á landsvísu.  Árangur í stærðfræði er raunar einnig góður í þeim nágrannasveitarfélögum sem eru á þjónustusvæði Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.  Sé reiknað meðaltal skóla í Garðinum, Sandgerði og Reykjanesbæ,  í 4. bekk í stærðfræði, eru skólarnir yfir landsmeðaltali.
Árangur í íslensku í 4. bekk er einnig góður, en nemendur í 4. bekk í Reykjanesbæ eru nú í fyrsta skipti yfir landsmeðaltali í íslensku.
Árangur í stærðfræði í 7. bekk er góður en þar er árangur í Reykjanesbæ yfir landsmeðaltali.  Skólarnir í bænum hafa sett sér það markmið að vera yfir eða í landsmeðaltali í öllum samræmdum greinum.  Lengra er í land með að það markmið náist í íslensku í 7. bekk  en verið er að vinna að því í öllum skólunum.
Þetta er birt með fyrirvara um að endanlegar tölur frá Námsmatsstofnun liggja ekki fyrir, segir í tilkynningu frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar