Rúnar Sigurvinsson og Kjartan Már Kjartansson taka fyrstu skóflustungu.
Rúnar Sigurvinsson og Kjartan Már Kjartansson taka fyrstu skóflustungu.

Í dag var tekin fyrsta skóflastunga að þjónustumiðstöð við Reykjanesvita. Það var Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Rúnar Sigurvinsson frá Reykjanes Aurora sem tók fyrstu skóflustungu. Áætlað er að þjónustumiðstöðin verði tilbúin í sumarbyrjun 2017.

Það er félagið Reykjanes Aurora ehf. sem byggir. Um er að ræða 300 fermetra þjónustumiðstöð sem m.a. mun hýsa veitingasölu og snyrtingu. Reykjanes Geopark auglýsti í upphafi árs eftir áhugasömum aðilum að uppbyggingu ferðaþjónustu við Reykjanesvita og bárust fjögur tilboð. Þjónustueiningu vantaði á svæðið, sem hefur verið  heimsótt  af um 200.000 ferðamönnum á ári, að því er áætlanir gera ráð fyrir.

Að sögn Rúnars var hugað að því að byggingin félli sem best að náttúrunni við Reykjanesvita. Við skóflustunguna í dag þakkaði hann Reykjanes Geopark, Uppbyggingasjóði Suðurnesja, sem hefur styrkt verkefnið og Reykjanesbæ. Athöfnina tileinkaði Rúnar afa sínum, Guðfinni Sigurvinssyni fyrrum bæjarstjóra í Keflavík sem jarðsettur var í gær frá Keflavíkurkirkju. Kjartan Már bæjarstjóri sagðist við sama tilefni ánægður með að þjónustumiðstöð á þessum fjölsótta ferðamannastað væri að verða að veruleika.

Teikning af fyrirhugaðri þjónustumiðstöð við Reykjanesvita

Teikning af byggingunni frá Reykjanes Aurora ehf.