Frestun fasteignagjalda

Yfirlitsmynd af Reykjanesbæ
Yfirlitsmynd af Reykjanesbæ

Fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjumissi og auknum kostnaði á árinu 2020 vegna heimsfaraldursins eru hvött til að nýta sér frestun fasteignagjalda. Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti frestun fasteignagjalda í maí síðastliðnum í samræmi við bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna.

Ákvæðið felur í sér að sveitarfélögum er heimilt að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í C – flokki. Gjalddagarnir eru frá 1. apríl til 1. desember með eindaga í síðasta lagi 15. janúar 2021. Verði gjaldandi sem frestað hefur greiðslum til 15. janúar 2021 fyrir miklu tekjufalli á árinu 2020 getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna. Þá er heimilt að fresta gjalddögunum til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021.

Gjaldendur sem nú þegar hafa óskað eftir fresti og óska eftir að bæta við einum gjalddaga og/eða lengja eindaga eru vinsamlega beðnir um að senda inn beiðnir á netfangið frestunfasteignagjalda@reykjanesbaer.is. Gjaldendur sem ekki hafa óskað eftir fresti nú þegar eru jafnframt hvattir til að að hafa samband í gegnum sama netfang.