Fundur bæjarstjóra með United Silicon

Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík.

Kæru bæjarbúar

Ég ætla að setja hér inn upplýsingar um fund sem fulltrúar Reykjanesbæjar áttu með forsvarsmönnum United Silicon laugardaginn 19. nóv. 2016.

Fundurinn

Snemma að morgni laugardaginn 19. nóv. hafði ég samband við Helga Þórhallsson, forstjóra United Silicon, og óskaði eftir fundi með honum til þess að fræðast um stöðuna og hvað væri framundan. Tilefnið var sú lyktamengun og viðbrögð bæjarbúa sem margir hafa orðið varir við síðustu daga.

Helgi tók vel í erindið og við ákváðum að hittast í húsnæði USi í Helguvík kl. 13:00. Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, kom með mér auk þess sem ég bauð bæjarfulltrúum að koma ef þeir gætu þótt fyrirvarinn væri stuttur. Fjórir bæjarfulltrúar sáu sér fært að koma og vorum við þvi 6 sem mættum fyrir hönd Reykjanesbæjar. Frá United Silicon mættu auk Helga 3 aðrir lykilmenn og fulltrúi Orkurannsókna Keilis sem sér um mengunarvöktun á svæðinu og heldur úti heimasíðunni www.andvari.is.

Staðan

Það helsta sem kom fram á fundinum var að USi er að hita upp þann eina ofn sem búið er að setja upp í kísilverksmiðjunni og er það gert með því að brenna viðarspæni inni í ofninum. Ólyktin sem margir íbúar hafa fundið kemur þaðan. Við þetta hækkar hitinn í ofninum smátt og smátt en er enn ekki kominn í það hitastig ennþá sem stefnt er að. Þar af leiðir að bruninn í ofninum ekki orðinn eins hreinn og hann mun verða. Með hærri hita verður bruninn hreinni og betri og lyktamengunin minni að þeirra sögn. Samhliða þessu er smátt og smátt verið að hleypa meira rafmagni á ofninn með það að markmiði að ná upp fullum hita og krafti. Þetta er flókið ferli sem tekur nokkra daga en þegar því lýkur, vonandi strax eftir helgi, eiga þau óþægindi sem við höfum orðið vör við að vera úr sögunni.

Betri upplýsingar

Við ræddum einnig um mikilvægi þess að þeir veiti góðar upplýsingar á mannamáli svo bæjarbúar skilji það sem er að gerast. Við báðum fulltrúa Orkurannsókna Keilis um að bæta framsetningu upplýsinga og gagna á www.andvari.is þannig að við gætum betur skilið hvað þær mælingar eru að segja okkur. Það kom einnig fram að þeir toppar sem sjá má á línuritum á www.andvari.is séu vegna prófana og stillinga á mælitækjum, sem fara þannig fram að efnum og gastegundum er úðað á mælitækin til að ganga úr skugga um að þau virki og séu rétt stillt. Við báðum um að slíkar prófanir og stillingar á tækjum yrðu framvegis kynntar fyrirfram þannig að fólk sem vildi fylgjast með gæti vitað af þeim áður en þær færu fram.

Einnig kom fram á fundinum að erfitt væri að segja til um hvað af algengustu lofttegundunum sem verið væri að mæla kæmu frá kísilverksmiðjunni, hvað kæmi frá Keflavíkurflugvelli og hvað kæmi frá bílaumferð. Í Helguvík, rétt hjá einum mælinum, hafa bílaleigur verið að leggja tugum eða hundruðum bíla til vetursetu á síðustu dögum. Útblástur úr þeim gæti haft áhrif mælingarnar á sama hátt og mælingar sums staðar í Reykjavík, s.s. á Grensásvegi og Miklubraut, sýndu stundum mikla loftmengun í borginni.

Að lokum var ákveðið að ég myndi verða í sambandi við Helga aftur á miðvikudaginn til að taka stöðuna. Ég læt ykkur vita meira að þeim fundi loknum.

Með kveðju,

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri