Gimli vottaður móðurskóli Leikur að læra

Fimmtudaginn 18. febrúar sl. var leikskólinn Gimli vottaður móðurskóli kennsluaðferðarinnar Leikur að læra. Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára er kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt.

Kristín Einarsdóttir íþrótta- og gunnskólakennari er stofnandi og eigandi Leikur að læra. Hún fór að fikra sig áfram með kennsluaðferðirnar árið 2005 þegar hún starfaði sem grunnskólakennari við Lágafellsskóla í Mosfellsbæ og fór svo að vinna með hana á fullu 2009 þegar hún störf í Krikaskóla í Mosfellsbæ, sem er leik- og grunnskóli. Hún segir að þar hafi opnast fyrir sig nýr heimur því leikskólabörnin tóku svo vel í aðferðirnar.  Kristín segist þó hafa notað kennsluaðferðir Leikur að læra á öllum stigum grunnskóla.  

Leikskólinn Gimli hefur undanfarin rúm tvö ár unnið þróunarverkefni út frá kennsluaðferðinni Leikur að læra í samvinnu við Kristínu Einarsdóttur. Að sögn Karenar Valdimarsdóttur leikskólastjóra á Gimli var auðvelt fyrir starfsfólk og börn á Gimli að  aðlaga  Leikur að læra að hugmyndafræði leikskólans þ.e. Hjallastefnunni,  því fyrir var búið að leggja góðan grunn að læsi og stærðfræði  með leikgleðina að leiðarljósi.  „Kennsluaðferðin  Leikur að læra var því góð og gagnleg viðbót sem starfsmannhópurinn var tilbúinn til að vinna með og þróa áfram í leikskólastarfinu í samvinnu við Kristínu.  Það hefur aldrei vafist fyrir leikskólakennurum að börn læri mest og best í gegnum leikinn og að  taka hreyfinguna og foreldraverkefnin  enn frekar með, er hrein snilld.“   

Leikskólar sem velja að verða Leikur að læra skólar  - vera í Leikur að læra liðinu,  kenna a.m.k. tvisvar í viku í gegnum leik og hreyfingu í sal og  samverustund og nota foreldraverkefni  Lærum á leið inn a.m.k. tvisvar í viku. Teknar eru þriggja mánaða lotur á haustönn og vorönn, en verkefnið er mjög sýnilegt í skólastarfinu allt árið um kring. Bók- og tölustafir, litir og form eru mjög sýnileg í umhverfi Leikur að læra skóla. Efniviður til náms er því alltaf til staðar.

„Það er mikill heiður fyrir Gimli að Kristín höfundur Leikur að læra skyldi hafa valið skólann  sem móðurskóla“, segir Karen“ og tel ég það fyrst og fremst áhugasömu starfsfólki og foreldrum barna á Gimli að þakka. „Við þurfum að upphefja leik og hreyfingu  sem kennsluaðferð á öllum  aldursstigum í skólakerfinu“ segir Karen að lokum.

Að sögn Kristínar er auk Gimlis leikskólinn Leirvogstunguskóli í Mosfellsbæ móðurskóli Leikur að læra. Leikskólar sem vilja kynna sér nánar aðferðina geta leitað til móðurskólanna, því þeir eru búnir að tileinka sér aðferðina og hafa góða þekkingu og reynslu.  Leikskólarnir Vesturberg og Akur í Reykjanesbæ eru nú í ferli til að verða Leikur að læra skóli ásamt nokkrum öðrum  leikskólum á landsvísu.

Kennsluaðferðin Leikur að læra fellur vel að framtíðarsýn Reykjanesbæjar í menntamálum, þar sem aukin áhersla er lögð á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum.   

Lesa má um kennsluaðferðina Leikur að læra hér.