Glæsileg undirgöng tekin í gagnið við Grænás

Lengi voru gatnamót Grænásbrautar og Reykjanesbrautar ein hættulegustu gatnamót landsins. Eftir að herinn fór árið 2006 og 1800 manna íbúabyggð þróaðist á svæðinu hefur umferð almennings þvert yfir Reykjanesbrautina aukist, á það jafnt við um akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur og hefur umferðarhætta við gatnamótin því aukist verulega. Með tilkomu hringtorgs sem gert var 2010 og nú undirganganna hefur dregið verulega úr hættu á þessu svæði og öryggi vegfarenda aukist til mikilla muna.

 

Engin ný slys hafa verið skráð eftir tilkomu hringtorgsins. Þessar framkvæmdir hafa verið samstarfsverkefni Vegagerðar og Reykjanesbæjar. Hefur það samstarf gengið með ágætum. Fleiri verkefni hafa verið unnin í samstarfi við Vegagerðina, s.s. gatnamótin við Stekk og svo ný tenging Reykjanesbrautar inn á Þjóðbraut sem eru mikil samgöngubót. Það hlýtur að vera markmið allra sem standa að samgöngumálum að útrýma svartblettum í umferðinni og munum við halda áfram á sömu braut.

Framkvæmdir við hringtorgið hófust í júlí 2010 og lauk þeim í október sama ár en framkvæmdir við undirgöng hófust í apríl 2011 og lauk þeim í október 2011. Undirbúningur við þessar miklu samgöngubót hófst árið 2007.

Myndir: Nemendur Njarðvíkurskóla voru mættir til þess að vígja göngin formlega en auk þeirra voru þeir Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri viðstaddir.